Enski boltinn

Guardiola: Var orðið erfitt hjá okkur Mourinho

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola mætir með lærisveina sína í Manchester City á Old Trafford í hádeginu á morgun þar sem Manchester-liðin mætast í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 11.30.

Pep og José Mourinho var ekki vel til vina á Spáni þegar þeir stýrðu Barcelona og Real Madrid en áður höfðu þeir unnið saman hjá Barca.

„Hann var þjálfarinn minn þegar hann var aðstoðarmaður Sir Bobby Robson.  Þetta var svolítið erfitt fyrir okkur báða undir það síðasta þegar við vorum hjá Barcelona og Real. Það var erfitt fyrir okkur báða,“ sagði Pep á blaðamannafundi í dag. „Við hittumst fyrir 2-3 vikum á fundi knattspyrnustjóra og töluðum saman. Það var allt í lagi.“

Guardiola var spurður út í nágrannaslaginn en hann upplifði margsinnis að spila það sem er talinn stærsti fótboltaleikur hvers árs í deildarkeppni þegar Barcelona og Real eigast við.

„Barcelona á móti Real Madrid var alltaf stærsti og besti leikurinn og varð alltaf stærri og stærri. Leyfið mér að upplifa þennan leik á morgun og eftir hann skal ég segja ykkur hvernig hann er miðað við Barcelona á móti Real eða Bayern á móti Dortund,“ sagði Guardiola.

Myndbrot frá blaðamananfundinum má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×