Fótbolti

Böðvar í leikmannahóp Midtjylland í fyrsta skipti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Böðvar gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Midtjylland á morgun.
Böðvar gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Midtjylland á morgun. vísir/andri marinó
Böðvar Böðvarsson gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir dönsku meistarana í FC Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni á morgun þegar liðið mætir botnliði Hobro á heimavelli.

FH-ingurinn gekk í raðir Midtjylland í láni undir lok janúar-gluggans og hefur verið að æfa með aðalliðinu og spilað einn leik með varaliðinu. Hann verður svo í fyrsta skipti í leikmannahóp aðalliðsins á morgun þegar liðið fær Hobro í heimsókn.

„Hann er ungur leikmaður sem hefur komið inn og verið frískur. Hann hefur þurft að venjast nýjum áskorunum hjá nýju félagi. Hann er klárlega með hæfileika og því er hann nú í leikmannahópnum,” sagði Jess Thorup, þjálfari Midtjylland, um Böðvar eða "Bödda Löpp" eins og hann er oftast kallaður.

Midtjylland er í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar eftir úrslit dagsins, en þeir eiga þó leik inni á flest liðin í kringum sig. Með sigri gegn Hobro á morgun fer liðið upp í fjórða sætið og með stórsigri geta þeir hoppað upp í þriðja sæti deildarinnar.

Bæði lið töpuðu sínum síðasta leik; Hobro fékk skell gegn Viborg, 6-0, og Midtjylland tapaði fyrir Nordsjælland, 2-1. Hann er klárlega með hæfileika og þeir eru til staðar.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma og er sýndur á TV3 Sport1 fyrir áhugasama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×