Innlent

Uppsögn Söru Lindar ekki ólögmæt en dómur klofinn í eineltismáli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hjónin Sara Lind og Stefán Einar störfuðu bæði hjá VR.
Hjónin Sara Lind og Stefán Einar störfuðu bæði hjá VR. Vísir
Hæstiréttur hefur staðfest dóm úr héraði þar sem stéttarfélagið VR var sýknað af kröfum Söru Lindar Guðbergsdóttur, fyrrverandi starfsmanns VR. Sara Lind fór fram á tvær milljónir króna í skaðbætur frá félaginu vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar og eineltis sem hún taldi sig hafa orðið fyrir í starfi hjá VR.

Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti klukkan 15 í dag. Björn L. Bergsson, lögmaður VR í málinu, segir dóminn hafa verið á einu máli um að uppsögnin hafi ekki verið ólögmæt. Hins vegar hafi dómurinn klofnað í afstöðu sinni til kröfunnar vegna eineltis.

Þannig hafi tveir dómarar af þremur talið að hægt væri að gera athugasemdir og aðfinnslur við framkomu Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanns VR, gagnvart Söru. Framkoman hafi hins vegar ekki verið af þeim grófleika sem valdi skuli bótum. Þriðji dómarinn taldi hins vegar að þar sem um stéttarfélag væri að ræða þyrfti að gera ríkari kröfur í málum á borð við þessu. Því væru bætur réttlætanlegar.

Sagt upp níu vikum eftir innkomu Ólafíu

Sara Lind var ráðin í yfirmannsstöðu hjá VR í apríl árið 2012 þegar Stefán Einar Stefánsson, núverandi eiginmaður, gegndi formennsku. Í umfjöllun DV í árslok 2012 kom fram að Sara Lind hefði verið ráðin í starfið þótt hún hefði ekki verið metin hæfust í umsóknarferlinu. Stefán Einar sagði við sama tækifæri að samband þeirra hefði ekki hafist fyrr en eftir að Sara Lind tók til starfa.

Ólafía B. Rafnsdóttir er formaður VR.
Söru Lind var sagt upp í júní rúmu ári síðar og var vísað til skipulagsbreytinga. Níu vikum fyrr hafði Ólafía B. Rafnsdóttir tekið til starfa sem formaður VR. Tók hún við starfinu af Stefáni Einari.

Sjá einnig: Segist hafa verið niðurlægð og augljóst að Ólafíu var illa við sig

Við aðalmeðferð málsins lýsti Sara Lind samskiptum sínum við Ólafíu þar sem hún sakaði hana um að hafa endurtekið hunsað fundarbeiðnir sínar og teki undirmann Söru Lindar með sér á fundi þar sem kjaramál voru til umræðu. Hún sagðist hafa upplifað þessa framkomu sem lítilsvirðingu.

Vildi ræða við fólk með yfirburðaþekkingu

Ólafía lýsti því fyrir dómi að hún hefði leitað til þeirra sem höfðu yfirburðaþekkingu á málefnum VR þegar hún tók til starfa sem formaður félagsins árið 2013. Ástæðan fyrir því að hún leitaði til undirmanns Söru Lindar var sú að sá hafði 25 ára reynslu af kjaramálum.

„Mér fannst það bara eðlilegt og við hæfi að afla mér upplýsinga hjá þeim sem hafði yfirburðaþekkingu,“ sagði Ólafía fyrir dómi.

Dómurinn verður birtur á vef Hæstaréttar klukkan 16:30.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×