Erlent

26 ára Breti lét taka mynd af sér með egypska flugræningjanum

Atli Ísleifsson skrifar
Sprengjubelti flugræningjans reyndist ekki vera ekta.
Sprengjubelti flugræningjans reyndist ekki vera ekta.
26 ára Breti sem haldið var í gíslingu í flugi EgyptAir á Kýpur í gær segist hafa látið taka mynd af sér með flugræningjanum til að komast nær og sjá betur „sprengjubelti“ ræningjans.

Ben Innes segir í samtali við Sun að ef sprengjubeltið væri ekta hefði hann hvort eð er ekki haft neinu að tapa.

Innes var einn þriggja farþega, auk fjögurra áhafnarmeðlima, sem haldið var áfram í gíslingu eftir að vél EgyptAir var lent á Larnaca-flugvellinum á Kýpur í gærmorgun. Flestum farþegum var sleppt skömmu eftir lendingu.

Flugræninginn Seif Eldin Mustafa, 52 ára Egypti, kvaðst þá vera með sprengjubelti, en síðar kom í ljós að það hafi ekki verið ekta. Síðustu gíslunum var sleppt um hádegisbil að íslenskum tíma í gær og flugræninginn handtekinn.

Innes er starfsmaður breskra heilbrigðisyfirvalda frá Leeds, en starfar í Aberdeen í Skotlandi. Hann var á leið heim úr vinnuferð þegar vélinni, sem var á leið milli Alexandríu og Kaíró, var rænt.

Hann ræddi við breska blaðið Sun um ástæður þess að hann lét taka mynd af sér með flugræningjanum.

„Ég er ekki viss af hverju ég gerði þetta. Ég var bara að reyna að halda stemningunni uppi þegar ég stóð frammi fyrir þessari ógn. Ég taldi að ef sprengjan væri raunveruleg þá hefði ég hvort eð er engu að tapa, svo ég tók áhættuna til að sjá hana betur.“

Innes segist hafa beðið einn áhafnarmeðlima um að þýða fyrir sig og spyrja ræningjann hvort hann mætti taka mynd af sér með honum. „Hann yppti bara öxlum og sagði allt í lagi, svo ég stóð hjá honum og brosti á meðan flugfreyjan tók myndina. Þetta hlýtur að vera besta selfie sögunnar.“

Miklar umræður hafa í kjölfarið spunnist á netinu um hvenær „selfie“ sé „selfie“ og hvenær ekki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×