Erlent

Áfall fyrir hægri öfl

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hópur fólks beið við byggingu hæstaréttar Bandaríkjanna í Washingtonborg í gær.
Hópur fólks beið við byggingu hæstaréttar Bandaríkjanna í Washingtonborg í gær. Nordicphotos/AFP
Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti í gær úrskurð áfrýjunardómstóls um að félög ríkisstarfsmanna geti áfram innheimt félagsgjöld af ófélagsbundnum starfsmönnum ríkisstofnana.

Enginn hafði reiknað með því að launþegahreyfingin myndi vinna þetta mál, en eftir að Antonin Scalia dómari lést í síðasta mánuði hafa dómarar hæstaréttar verið átta talsins.

Dómurinn klofnaði í þessu máli. Fjórir dómarar studdu úrskurð áfrýjunardómstóls, sem hafði dæmt verkalýðsfélaginu í vil, en fjórir voru á móti. Þar með stendur úrskurður áfrýjunardómstólsins.

Hefðu fimm dómarar verið andvígir, eins og allt stefndi í þangað til Scalia lést, þá hefði verkalýðshreyfingin tapað málinu.

Þegar málið var tekið fyrir í hæstarétti í janúar fór ekki á milli mála, að því er fram kemur í frásögn bandarísku fréttastofunnar Associated Press, að Scalia myndi að öllum líkindum greiða atkvæði gegn verkalýðshreyfingunni.

Deilan snerist um fyrirkomulag, sem verið hefur við lýði í nærri fjóra áratugi. Verkalýðsfélögum hefur verið heimilt að innheimta félagsgjöld af öllu starfsfólki, hvort sem það hefur gengið í félögin eða ekki.

Litið hefur verið svo á að þeir, sem ekki hafa gengið í félögin, njóti engu að síður góðs af kjarasamningum sem félögin gera við launagreiðendur. Þeim beri því að greiða til félaganna sanngjörn félagsgjöld, enda hafi félögin útgjöld af því að standa í samningaviðræðum.

Niðurstaðan í hæstarétti í gær þykir mikill ósigur fyrir hægri öfl í Bandaríkjunum sem hafa lengi barist gegn þessu fyrirkomulagi á þeim forsendum að ekkert réttlæti það að félög geti tekið fé af fólki sem ekki er félagsbundið.

Togstreita er nú milli forystusveitar Repúblikanaflokksins og Baracks Obama forseta um skipan nýs hæstaréttardómara. Obama hefur tilnefnt Merrick Garland í embættið, en þarf samþykki öldungadeildar Bandaríkjaþings. Repúblikanar vilja hins vegar bíða með að staðfesta tilnefninguna þangað til búið er að kjósa nýjan forseta. Kosningarnar verða í nóvember.

Obama gerði sér far um að tilnefna í lausa dómarasætið mann, sem repúblikanar ættu auðvelt með að fallast á, jafnvel þótt hann þætti ekki líklegur til að draga taum hægri manna sérstaklega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×