Innlent

Friðarskip kemur til Reykjavíkur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um eitt þúsund farþegar eru um borð.
Um eitt þúsund farþegar eru um borð. Vísir
Friðarskipið Ocean Dream kemur til Reykjavíkur á morgun með rúmlega eitt þúsund farþega. Skipið siglir vítt og breitt um heiminn með farþega sem hafa að leiðarljósi að vekja athygli á friði, mannréttindum og umhverfisvernd.

Friðarskipið er rekið af frjálsum, japönskum félagasamtökum sem var komið á fót af hugumstórum háskólastúdentum árið 1983, en þeim ofbauð ritskoðun ríkisstjórnarinnar á skólabókum, þar sem verulega var dregið úr hlut Japana í stríðsrekstri.

Í kjölfarið keyptu stúdentarnir sér skip og hófu að sigla á milli Asíulanda sem höfðu verið hersetin eða átt í stríði við Japani, í þeim tilgangi að heyra sögur fólksins sjálfs.

Takmarkið með friðarskipinu er að fá fólk til að hittast í hinum ýmsu löndum og ræða frið, mannréttindamál og umhverfisvernd og vekja ráðamenn til umhugsunar í leiðinni. Umfangið jókst smám saman og frá árinu 1990 hefur Ocean Dream farið árlegar heimsreisur. Skipið hefur áður komið til Íslands í þessum erindagjörðum.

Rúmlega 500 manns eru í áhöfn skipsins sem mun vera í höfn í Reykjavík fram á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×