Erlent

Hampað sem hetju fyrir að neita að selja byssu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Byssan á myndinni tengist málinu ekki.
Byssan á myndinni tengist málinu ekki. vísir/getty
Skotvopnaverslunareiganda í Aþenu í Ohio-ríki hefur verið hampað sem hetju eftir að hann neitaði að afgreiða mann þrátt fyrir að ekkert óeðlilegt kæmi fram í bakgrunnsskoðun mannsins. Eigandinn hafði á tilfinningunni að maðurinn hefði eitthvað illt í hyggju. Fjallað er um málið af CBS.

Síðastliðinn mánudag strunsaði hinn 25 ára gamli James Howard úr tíma í háskólanum í Ohio. Hann er að auki grunaður um að hafa í kjölfarið ráðist á aðstoðarþjálfara hokkíliðsins. Þaðan ók hann í skotvopnaverslun, sem rekin er af John Downs, og skoðaði þar byssur.

„Þegar hann hélt á byssunni þá mundaði hann gikkinn eins og hann hefði eitthvað illt í hyggju. Það var eitthvað við augnaráðið, ég get ekki útskýrt það,“ segir Downs. „Það var bara eitthvað. Þessi maður var að fara að gera eitthvað.“

Daginn eftir að honum var neitað um afgreiðslu mætti Howard aftur í búðina en þá hringdi Downs á lögreglu. Maðurinn var handtekinn en í bíl hans fannst byssa sem hann hafði komið höndum á. „Við vitum ekki hve mörgum lífum var bjargað þarna,“ segir talsmaður lögreglunnar í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×