Erlent

Forseti Tyrklands móðgaður út í Þjóðverja

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Recep Tayyip Erdogan kallaði þýska sendiherrann á sinn fund.
Recep Tayyip Erdogan kallaði þýska sendiherrann á sinn fund. Nordicphotos/AFP
Forseti Tyrklands kallaði sendiherra Þýskalands á sinn fund til að kvarta undan gamanþætti á þýskri sjónvarpsstöð, þar sem óspart var gert grín að tyrkneska forsetanum.

Í þættinum Extra 3, sem sendur er út á þýsku sjónvarpsstöðinni NDR, var sýnt nokkurra mínútna langt tónlistarmyndband, þar sem Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti var dreginn sundur og saman í háði.

Myndbandið heitir „Erdowie, Erdowo, Erdogan“, eða „Erdohvernig, Erdohvar, Erdogan“. Þar voru sýndar kostulegar myndir af ýmsum tilburðum Erdogans á opinberum vettvangi, og inn á milli eru svo sýndar myndir af tyrkneskum lögreglu- og hermönnum að berja á mótmælendum.

Á meðan barið er á konum er til dæmis sungið: „Jafnrétti fyrir konur, jafnar barsmíðar.“

Martin Erdmann sendiherra mátti sitja undir gagnrýni Erdogans, sem krafðist þess að þátturinn yrði aldrei sýndur aftur. Helst vildi hann að sjónvarpsstöðin eyddi myndbandinu.

Fréttir af fundi Erdogans með sendiherranum urðu hins vegar til þess að auka mjög áhorf á myndbandið á netinu. Sjónvarpsstöðin brást við með því að endurbirta myndbandið á Twitter, og nú einnig með enskum og tyrkneskum texta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×