Innlent

Elena Skorobogatova er með íslenskan ríkisborgararétt

Jakob Bjarnar skrifar
Inga Guðrún var þreytt þegar hún sendi út listann, sá hann varla á skjánum og því fóru þessir minnispunktar út fyrir misgáning. En Gústaf leiðir listann.
Inga Guðrún var þreytt þegar hún sendi út listann, sá hann varla á skjánum og því fóru þessir minnispunktar út fyrir misgáning. En Gústaf leiðir listann.
Íslenska Þjóðfylkingin, E-listinn, hefur fullmannað lista sinn í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í fyrsta sæti listans situr sagnfræðingurinn Gústaf Níelsson. Annað sæti listans skipar Inga Guðrún Halldórsdóttir, félagsliði. Hún sendi listann út til fjölmiðla í gærkvöldi en fyrir mistök var sendur út listi þar sem athugasemd var gerð við nafn Elenu Skorobogatova íþróttakennara sem skipar 18. sæti á lista: „Ath ríkisborgararétt“.

Ýmsir á samfélagsmiðlum hafa verið að reyna að ráða í þessi torkennilegu skilaboð en Inga Guðrún segir þetta mistök.

„Þetta er eitthvað sem ég hafði punktað hjá mér. Þetta var svo seint í gærkvöldi, ég var eitthvað svo þreytt að ég gleymdi að hreinsa þetta út. Þetta voru bara minnispunktar fyrir mig. Sem ég hafði sett til hliðar. Vorum að klára að setja upp listann á fundi í gær, það var eitthvað verið að spyrja út í þetta, en auðvitað er allt á hreinu með ríkisborgararétt Elenu.“

Ýmsir reyna að ráða í hvað lesa megi í þessi skilaboð frá Íslensku þjóðfylkingunni.
Inga Guðrún segir að hún sé mjög ánægð með listann en hún var þreytt eftir fundinn og sá illa á skjalið. „Þetta er kjánalegt, ég hélt að þetta væri allt svo flott og tilbúið hjá mér.“

Hún segir að á lista séu nokkrar erlendar konur og þetta sé flottur hópur. „Við viljum endilega að útlendingar séu með í stjórnmálum á Íslandi. Að þeirra rödd heyrist líka.“

En, nú vilja margir ætla að ykkur sé í nöp við útlendinga, séuð útlendingahatarar?

„Neineinei, við viljum bara að þetta fólk aðlagist íslensku samfélagi. Viljum ekki að landamærin séu galopin, við megum ekki vera einhverjir kjánar. Það eru alltaf einhverjir sem vilja misnota aðstöðuna. Við verðum að velja þau sjálf sem við viljum fá hingað til landsins. Við getum ekki fengið heiminn yfir okkur. Það er þöggunaráróður sem er í gangi, að fólk megi ekki segja sína skoðun án þess að vera úthrópað sem rasistar. Stimplunarárátta. Við viljum bara byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í það.“






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×