Innlent

Ríkið dæmt í annað sinn á árinu til þess að greiða Björgvini bætur

Þorgeir Helgason skrifar
Björgvin Mýrdal Þóroddsson.
Björgvin Mýrdal Þóroddsson. Mynd/Björgvin Mýrdal
Íslenska rík­inu hef­ur verið gert að greiða Björg­vini Mýr­dal 120 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur fyr­ir lík­ams­leit sem gerð var á hon­um.

Málavextir eru þeir að Björgvin var gestur á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í fyrra þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum og kröfðust þess að fá að leita á honum. Í dóminum segir að fíkniefnahundur hafi gefið í skyn að Björgvin væri með fíkniefni á sér. 

Björgvin neitaði að heimila líkamsleit vegna þess að hann taldi hvorki vera til staðar lagaskilyrði til handtöku né líkamsleitar. Var hann þá handtekinn fyrir framan fjölda manns og leitað á honum. Ekkert saknæmt fannst og var Björgvini sleppt að leit lokinni. Björgvin þvertekur fyrir það að hundurinn hafi merkt sig og segir lögregluna hafa beitt því fyrir sig til að réttlæta aðgerðirnar.

Þá er gerð athugasemd í dómnum við að nafn félagsskaparins Snarrótarinnar hafi verið skrifað í sviga á eftir nafni Björgvins. Snarrótin berst meðal annars gegn bannhyggju í fíkniefnamálum og gegnir Björgvin stöðu ritara í stjórn félagsins.



Dómurinn telur engin málefnaleg sjónarmið að baki slíkri skráningu af hálfu lögreglu og sjálfur telur Björgvin að með því að setja nafn Snarrótarinnar í skýrsluna hafi lögregla verið að skrá stjórnmálaskoðanir hans.

„Ég er ánægður með að hafa unnið málið en mér finnast þessi vinnubrögð hjá lögreglunni vera með ólíkindum. Vonandi verður þessi dómur til þess að verklag hjá lögreglunni verði skoðað,“ segir Björgvin.

Þetta eru ekki einu bæturnar sem Björgvin Mýrdal Þóroddsson fær frá ríkinu á þessu ári. Í apríl síðastliðnum var íslenska ríkið dæmt til að greiða honum 600 þúsund krónur í miskabætur vegna símhlerunar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×