Miðasölunni fyrir stuðningsmenn á leiki sinna liða á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar lýkur klukkan 11.00 í dag.
Ísland keppir á EM í fyrsta skipti og stuðningsmenn íslenska liðsins, hvort sem er fólk sem er búsett hér á landi eða Íslendingar sem búa í öðrum löndum, hafa rétt á ákveðnum fjölda miða.
Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ sem bárust Vísi nú í morgun hafa Íslendingar sótt um 20 þúsund miða alls, mögulegum leikjum Íslands í útsláttarkeppninni meðtöldum.
Sjá einnig: Auktu líkurnar á að fá miða á EM [ksi.is]
Fæstir miðar eru í boði fyrir stuðningsmenn Íslands á leikinn gegn Portúgal í St. Etienne. Sótt hefur verið um tæplega sex þúsund miða á leikinn en Ísland á rétt á um sjö þúsund miðum.
Uppfært: KSÍ bendir á að UEFA áskilur sér rétt á að taka frá miða vegna öryggisráðstafanna og af öðrum ástæðum. Það eru ekki til endanlegar tölur um hversu marga miða Ísland á rétt á en áætla að það séu tæplega sjö þúsund miðar á leikinn gegn Portúgal.
Miðar eru í mismunandi verðflokkum og er mesta eftirspurnin eftir miðum í verðflokki 4. Ef miðar seljast upp í þann verðflokk gæti umsóknum um slíka miða verið hafnað, þrátt fyrir að lausir miðar séu í öðrum verðflokkum. KSÍ mælir því með því að sækja um miða í fleiri verðflokkum með þeim fyrirvara að viðkomandi gæti þá endað með að kaupa dýrari miða en upphaflega var ætlað.
Alls hafa 4500 manns sótt um miða á síðu Íslands fyrir EM í gegnum heimasíðu UEFA, þar af rúmlega 1600 manns núna um helgina. Það skal þó tekið fram að þetta eru ekki endanlegar tölur um fjölda stuðningsmanna Íslands á EM.
Sjá einnig: Ísland vær 34 þúsund miða á EM
„Óseldir“ miðar af íslensku úthlutuninni verða boðnir stuðningsmönnum hins liðsins í hverju tilfelli fyrir sig.
Allar upplýsingar um miðasöluna má finna á vef UEFA sem og KSÍ.
Þess má geta að það stefnir í allir sem sækja um miða á leiki Íslands verði að ósk sinni. Allar umsóknir um miða sem eru samþykktar eru skuldbindandi.
Leikir Íslands:
Þriðjudagur 14. júní kl. 19.00: Portúgal - Ísland
Leikvöllur: Stade Geoffroy-Guichard, Saint-Etienne
Tekur: 42.000 áhorfendur
Ísland fær: 7 þúsund miða
Staða í morgun: Sótt um tæplega 6.000 miða
Laugardagur 18. júní kl. 16.00: Ísland - Ungverjaland
Leikvöllur: Stade Vélodrome, Marseille
Tekur: 67.394 áhorfendur
Ísland fær: 12 þúsund miða
Staða í morgun: Sótt um rúmlega 6.000 miða
Miðvikudagur 22. júní kl. 16.00: Ísland - Austurríki
Leikvöllur: Stade de France, Saint-Denis
Tekur: 81.338 áhorfendur
Ísland fær: 15 þúsund miða
Staða í morgun: Sótt um tæplega 5.500 miða
Miðasölu EM lýkur klukkan 11.00 | Kvótinn ekki fullur
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið

„Held áfram nema ég verði rekinn“
Körfubolti


Mateta líður vel þrátt fyrir tæklingu í andlitið
Enski boltinn

Borche: Dómararnir sjá það sem þeir sjá
Körfubolti


Kári: Bara negla þessu niður
Körfubolti



