Fótbolti

Ótrúleg uppákoma fyrir MLS-leik þegar vítateigurinn reyndist vera alltof lítill

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Starfsmenn Montreal Impact strika völlinn upp á nýtt.
Starfsmenn Montreal Impact strika völlinn upp á nýtt. Vísir/AP
Hann var vandræðalegur dómari leiks Montreal og Toronto í úrslitakeppni bandarísku MLS-deildarinnar í fótbolta þegar hann þurfti að láta mála vítateiginn upp á nýtt skömmu fyrir þennan mikilvæga leik.

Gríðarlegur áhugi var á uppgjöri þessu kanadísku liða og yfir 60 þúsund manns á pöllunum. Þau fengu þó engan fótbolta nærri því strax heldur urðu að fylgjast með mönnum stroka út og strika nýjar línur.

Sökin var að sjálfsögðu þeirra sem máluðu vítateiginn svona vitlaust en það varð 40 mínútna seinkunn á leiknum þar sem dómarinn uppgötvaði því ekki „litla“ vítateiginn fyrr en alltof seint.

Vandamálið var að dómaratríóið mætti of seint til leiks og sú tímaþröng hjálpaði til að mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en alltof seint.

Úr varð því ótrúleg uppákoma þar sem við sögu komu málband, spreybrúsar og ótal manns á fleygiferð við að reyna að koma vítateignum í rétta stærð. Á meðan stóð dómarinn vandræðalegur og fylgdist með á meðan óþolinmóðir áhorfendur og leikmenn þurftu að bíða í 40 mínútur eftir að leikurinn gæti hafist.

Allar línur annars vítateigsins voru tæplega tveimur metrum of nálægt markinu og við vorum því ekki að tala um einhverja sentímetra. Vítateigurinn var alltof lítill öðrum megin.

Montreal Impact spilar vanalega leiki sína á Stade Saputo sem tekur tæplega 21 þúsund manns en félagið flutti þennan mikilvæga leik yfir á Ólympíuleikvanginn í Montreal og seldu yfir 61 þúsund miða.

Montreal Impact vann leikinn 3-2 og hefur því naumt forskot fyrir seinni undanúrslitaleik liðanna eftir rúma viku.

Hér fyrir neðan má sjá myndbönd frá uppákomunni í Montreal í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×