Viðskipti innlent

Eimskip og Samskip sek um samráð í Hollandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eimskip og Samskip tóku þátt í samráði með tveimur öðrum fyrirtækjum og hafa þau verið sektuð um háar fjárhæðir.
Eimskip og Samskip tóku þátt í samráði með tveimur öðrum fyrirtækjum og hafa þau verið sektuð um háar fjárhæðir. Mynd/Samsett

Samkeppniseftirlitið í Hollandi hefur sektað Eimskip og Samskip ásamt tveimur hollenskum fyrirtækjum fyrir brot á samkeppnislögum þar í landi á árunum 2006 til 2009. Samtals eru fyrirtækin fjögur sektuð um 12.5 milljónir evra, um 1,8 milljarða íslenskra króna.

Í tilkynningu frá hollenska Samkeppniseftirlitinu segir að fyrirtækin hafi gert sig seka um alvarlegt ólögmætt samráð á frystigeymslumarkaði í Hollandi. Sektirnar eru á bilinu 63 milljónir til 1,3 milljarðar íslenskra króna en ekki er greint frá því hversu háar sektir eru lagðar á hvert og eitt fyrirtæki.

Samskip, Eimskip og hollensku fyrirtækin Kloosbeheer og Van Bon (nú H&S Coldstores) eru sektuð vegna þriggja mála. Gerðu þau með sér samkomulag um að skipta viðskiptavinum sín á milli auk þess sem að viðkvæmar samkeppnisupplýsingar fóru á milli fyrirtækjanna. Skekkti það samkeppnistöðu á frystivörugeymslumarkaði.

Þá eru fimm stjórnendur fyrirtækjanna sektaðir og nemur hæsta sektin 144 þúsund evrum eða rúmlega 20 milljónum króna. Ekki er greint frá því hjá hvaða fyrirtækjum stjórnendurnir starfa.

Fyrirtækið Kloosbeheer starfaði með Samkeppnisyfirvöldum við rannsókn málsins og var sekt þeirra lækkuð um 10 prósent vegna þess. Þá hafa tvö af þessum fyrirtækjum sem um ræðir lofað að bæta hegðun sín án þess að greint sé nánar frá því hvaða fyrirtæki um ræðir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×