Erlent

Hafa endurræst kjarnakljúf til vopnaframleiðslu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá stríðsminjasafni í Suður-Kóreu.
Frá stríðsminjasafni í Suður-Kóreu. Vísir/EPA
Yfirvöld Norður-Kóreu eru aftur byrjuð að framleið plútóníum eldsneyti til kjarnorkuvopnaframleiðslu. Stjórnendur einræðisríkisins einangraða virðast staðráðnir í að koma upp kjarnorkuvopnum í trássi við alþjóðasamfélagið og þrátt fyrir umtalsverðar þvinganir Sameinuðu þjóðanna.

Þetta segir embættismaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna í samtali við Reuters fréttaveituna. Kjarnorkuvopnaeftirlit Sameinuðu þjóðanna sagði fyrr í vikunni frá því að þeim hefðu borist fregnir af því að kjarnorkukljúfurinn í Yongbyon hefði verið gangsettur.

Fjórða kjarnorkuvopnatilraun Norður-Kóreu var framkvæmd í janúar og hefur mikil spenna verið á Kóreuskaga síðan þá.

Slökkt var á kjarnaklúfinum í Yongbyon árið 2007 eftir að samkomulag náðist við yfirvöld landsins um að hætta við kjarnorkuvopnaáætlun sína í staðinn fyrir mataraðstoð. Sá samningur fór síðar út um þúfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×