
Innan fjárlaganefndar er augljós ágreiningur. Oddný segir að hún myndi greiða atkvæði gegn frumvarpinu að óbreyttu. Það sé byggt á stefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og hún hafi margt við það að athuga.
„Til þess að bjarga málunum þurfum við fyrst og fremst að setja heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál á oddinn. Það er algert lágmark að horft sé á þessa þætti,“ segir Oddný.
Í gær samþykkti Íslandsbanki, á aðalfundi bankans, 27 milljarða arðgreiðslu til íslenska ríkisins. Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, segir að greiðslan muni ekki hafa áhrif á svigrúm fjárlaganefndar. Arðgreiðslan sé hins vegar eyrnamerkt til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs og muni því hafa þau áhrif að vaxtabyrði ríkissjóðs minnkar.
Gagnrýni Þorsteins Víglundssonar, fulltrúa Viðreisnar í fjárlaganefnd, er af allt öðrum toga en Oddnýjar.
„Ég held að það sé ekki hægt að segja annað út frá hagstjórnarlegum áherslum en að frumvarpið er mjög bólgið,“ segir Þorsteinn. Hann telur að verði fjárlagafrumvarpið samþykkt í upprunalegri mynd auki það útgjöld ríkisins um 60 milljarða á milli ára, sem sé mesta aukning á ríkisútgjöldum frá árinu 2008.

Samkvæmt áætlun þingsins er stefnt að því að klára afgreiðslu fjárlaga fyrir jól. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði við Stöð 2 í fyrrakvöld að tíminn væri naumur en unnið væri eftir þeirri áætlun.
„Ég held að það sé eindreginn vilji í nefndinni að reyna að ljúka málum fyrir jólin. Hins vegar er ljóst að tíminn er að hlaupa frá okkur en það er ekki ástæða til að halda annað en að við getum lokið málinu, náist sæmilega góð samstaða hjá nefndinni um breytingartillögur,“ segir Þorsteinn.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.