Innlent

Lifði af fyrsta daginn sem forsætisráðherra

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson settist í fyrsta sinn innst á ráðherrabekkinn í gærmorgun, á stól forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson settist í fyrsta sinn innst á ráðherrabekkinn í gærmorgun, á stól forsætisráðherra. Fréttablaðið/Anton Brink
Sigurður Ingi Jóhannsson þraukaði inn í sinn annan dag í embætti forsætisráðherra Íslands en báðar tillögur stjórnarandstöðunnar um vantraust og þingrof voru felldar á Alþingi í gær.

Vantrauststillögur hafa verið bornar upp nokkrum sinnum á lýðveldiss­tímanum en í gær var sögulegur dagur þar sem vantrauststillaga var í fyrsta sinn borin upp á ríkisstjórn sem hafði setið í einungis einn dag.

Í raun var Sigurður Ingi nokkuð öruggur í embættinu þó að umrótið í stjórnmálunum sé mikið þessa dagana og ákall um kosningar hávært. Vantrauststillaga á hendur ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar var felld með 38 atkvæðum gegn 25 en allir þingmenn stjórnarflokkanna kusu gegn henni.

Unnur Brá er vafalaust hetja gærdagsins í hugum stjórnarandstæðinga.vísir/vilhelm
Steig upp úr skotgröfinni

Tillaga um þingrof féll með 37 atkvæðum gegn 26. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kaus með tillögu um þingrof.

„Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn sem og þjóðin öll hafi hag af því að fara í kosningar,“ sagði Unnur Brá. Það væri hollt fyrir lýðræðið og þjóðfélagið í heild.

„Þegar verða mikil átök í pólitíkinni eins og hafa orðið nú vegna þessara atburða sem orðið hafa í vikunni, líka vegna þess sem gerðist þegar þjóðin felldi Icesave-lögin á sínum tíma, þá á þingið að skoða hug sinn og sjá hvort það sé ekki rétt að kjósa. Við erum ekki hrædd við kosningar. Þess vegna styð ég það að við förum í kosningar og segi já,“ sagði Unnur Brá og uppskar lófatak stjórnarandstæðinga.

Margi spáðu að Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, myndi venda kvæði sínu í kross en svo varð ekki, hún kaus bæði gegn vantrausti og þingrofi. Fólk vísaði í stuðning hennar við tillögu þáverandi forsætisráðherra um þingrof en hún féllst á samkomulag um nýja ríkisstjórn og haustkosningar.

„Hér er fulltrúalýðræði í þinginu og í Framsóknarflokknum, enda sagði ég í kjölfarið að ég myndi ekki standa að tillögu stjórnarandstöðunnar um þingrof enda finnst mér hún ekki tæk stjórnskipulega séð,“ sagði Vigdís.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru síður en svo sáttir við afstöðu stjórnarþingmanna og margir gáfu lítið fyrir loforð um kosningar í haust.

„Hér virðast þingmenn úr stjórnarmeirihlutanum ætla að fella tillögu um kosningar þrátt fyrir að maður heyrir úr herbúðum þeirra að þeir séu fylgjandi því og óhræddir við þær,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. „Ég spyr: Hvers vegna eru menn ekki búnir að gefa út dagsetningu um kosningar í haust? Þetta þarf að skýra. Önnur af breytingunum sem menn lofuðu hér voru kosningar fyrr. Hvað eru menn hræddir við? Kjósendur?“

Nýr burðarflokkur vinstra megin?

Þá gerði Maskína könnun sem leiddi í ljós að 50,7 prósent aðspurðra vilja alþingiskosningar í vor. 25,6 prósent vilja kosningar í haust en 23,3 prósent vorið 2017. Mikill munur var á afstöðu stuðningsmanna stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar en þeir fyrrnefndu vildu heldur halda kosningar seinna.

Vinstri Græn virðast í forgrunni hjá íslenskum vinstrimönnum um þessar mundir á meðan að Samfylkingin er ekki í fókus hjá almenningi.Fréttablaðið/Vilhelm
80 prósent landsmanna vilja að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segi af sér þingmennsku ef marka má skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

64 prósent vilja að Bjarni Benediktsson segi af sér sem ráðherra og 60 prósent að Ólöf Nordal innanríkisráðherra geri það einnig.

Tvær fylgiskannanir komu út í gær.

Ef marka má þær kannanir, sér í lagi könnun Maskínu, er nokkuð um vendingar í Íslenskum stjórnmálum. Vinstri Græn virðast nærast vel þegar samfélagsumræðan snýr að fyrirbærum eins og skattaskjólum og skattaundanskotum en í könnun Maskínu hafa Vinstri Græn tekið hástökk upp í 20 prósent fylgi og eru nærri jafn stór Sjálfstæðisflokknum sem mælist með 21,3 prósent fylgi.

Í könnun Félagsvísindastofnunar mælast Píratar enn með mest fylgi, eða 30,9 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23,3 prósent og Vinstri græn með 14,7 prósent.

Framsóknarflokkurinn mælist með 12,9 prósent. Samfylkingin með 9,5 prósent og Björt framtíð með 4,8. Aðrir flokkar eru með 3,9 prósent.

Í könnun Maskínu eru Píratar eru stærstir með 34,2.

Framsókn mælist með 9,4 prósent, Samfylkingin með 7,2 prósent og Björt framtíð með 5,2. Þá kemst Viðreisn á blað með 1,2 prósent en aðrir flokkar fá 1,5 prósent.

Könnun Maskínu var gerð í gær og voru gildir svarendur 2.239 eða 91,8 prósent. Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð 7. og 8. apríl og svarendur voru 826 talsins.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×