Í fréttatilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að hægt sé að keyra inn og út úr bænum um Nesveg og Suðurstrandarveg. Lokunarpóstar séu á Grindavíkurvegi nærri gatnamótum Reykjanesbrautar og staðan þar sé óbreytt.
Þá sé lokunarpóstur á Grindavíkurvegi við gatnamót Nesvegar. Vegna framkvæmda við varnargarða og þá miklu umferð þungra vinnuvéla inn í Svartsengi þyki nauðsynlegt að takmarka þar alla almenna umferð.

Ekki hætta af hraunrennsli
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við Vísi að helsta hættan af eldgosinu inni í Grindavík sé loftmengun. Loftgæði hafi mælst viðunandi inni í bænum og því hafi hann ákveðið, í góðu samráði við Grindavíkurnefndina, að opna bæinn. Ekki sé talin nein hætta af hraunrennsli inni í bænum.
Sem áður segir verður áfram lokað inn í Svartsengi vegna vinnu við að hækka varnargarða. Úlfar segist telja að sú vinna taki einhverjar vikur.