Menning

Að skoða kisumyndir og skemmta sér á netinu

Magnús Guðmundsson skrifar
Auður Lóa Guðnadóttir og Una Sigtryggsdóttir opnuðu sýninguna 109 Cats in Sweaters í gær.
Auður Lóa Guðnadóttir og Una Sigtryggsdóttir opnuðu sýninguna 109 Cats in Sweaters í gær.
Internetið er stór þáttur í hversdagslegu lífi og störfum margra í nútímasamfélagi, ekki síst þeirra sem eru af yngri kynslóðinni. Það er því ekki að undra að tvær ungar listakonur sem útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands í fyrravor geri internetið að viðfangsefni í listsköpun sinni. Í gærkvöldi opnuðu í Ekkisens þær Auður Lóa Guðnadóttir og Una Sigtryggsdóttir myndlistarsýninguna 109 Cats in Sweaters.

Auður Lóa segir að þetta sé þeirra fyrsta samstarfsverkefni en að Una hafi áður verið með eina einkasýningu. „Við erum að sýna þarna innsetningar sem við höfum unnið að saman og við sækjum myndefnið á internetið og vinnum það svo áfram í ýmsar áttir. Svona leikum við okkur með þetta. Við erum ekki að nota vídeólist heldur tökum þetta stafræna tæknilega myndefni og við settum okkur þá reglu að vinna svo öll verkin í höndunum. Við erum svona soldið að taka þetta úr sínu samhengi.

Eitt af verkunum á sýningunni 109 Cats in Sweaters í Ekkisens.
Málið er að þetta byrjaði á ákveðnum Buzzfeed-lista sem kallast 109 Cats in Sweaters. Þar eru myndir af köttum sem fólk hefur klætt í föt og ég var svona eitthvað að skoða þetta. Var að teikna þessa ketti og spá í þeim og þessu kon­septi að klæða kettina sína í peysur og setja myndir af þeim á netið. Þetta er svona afbrigðileg hegðun sem á sér stað í gegnum netið og við ákváðum að vinna svona aðeins með það. Þetta er hegðun sem er einkum samþykkt þar og það er alveg magnað að sjá hversu gríðarlega vinsælt þetta myndefni er.

Það er fyndið að hugsa til þess að það er hægt að nota internetið í alls konar gáfulegum tilgangi, skoða greinar og læra merkilega hluti, en það sem það er helst notað til er að skoða kisumyndir og skemmta sér á einhvern skrítinn hátt.“

Á sýningunni eru þær Auður Lóa og Una í raun að tefla saman list og veruleika og Auður Lóa segir að þetta sé í sjálfu sér eitthvað sem listamenn eru mikið að takast á við. „Ég, eins og margir aðrir listamenn, hef áhuga á því hvað það þýðir að búa hluti til og hvernig myndir ferðast frá einum stað til annars. Þú hefur köttinn, svo myndina af kettinum, sem er svo kominn í tölvuna hjá mér. Þetta er marglaga heimur sem gaman er að skoða.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×