Danski þjóðarflokkurinn (DF) vill veita lögreglu og starfsmönnum á heimilum fyrir hælisleitendur heimild til að setja útgöngubann á íbúa heimilanna.
Martin Henriksen, talsmaður flokksins þegar kemur að málefnum innflytjenda, segir að flokkurinn vilji að útgöngubannið eigi að geta gilt bæði í styttri og lengri tíma.
„Það gæti átt við þegar ítrekað hefur verið ráðist gegn konum í nágrenni við heimilin, aukið ofbeldi eða fjöldaslagsmál, sem við höfum meðal annars séð í tengslum við knattspyrnulandsleiki,“ segir Henriksen.
Í frétt SVT segir að ummæli Henriksen komi eftir að fimm táningspiltar voru fluttir frá heimili fyrir hælisleitendur eftir að tveir þeirra voru ákærðir fyrir nauðgun og þrír fyrir að flassa á tónlistarhátíð í lok síðasta mánaðar.
Vilja heimila lögreglu að setja útgöngubann á hælisleitendur
Atli Ísleifsson skrifar
