Þessi ómótstæðilega og óþolandi landeyða Jakob Bjarnar skrifar 10. nóvember 2016 07:15 Einar upplýsir að hann hafi aldrei lagt eins mikið í persónusköpun og með Storm. Lítið mál væri að skrifa um hann sem ómerking en það eru þarna víddir sem Einar vildi skoða betur. visir/GVA Bókajólin verða góð. Þó ekki sé nema fyrir eina bók. Einar Kárason hefur skrifað aðra bók um Eyvind Storm. „Það sem dró mig að þessu söguefni í upphafi var kannski ... ég segi ekki aðdáun heldur einhvers konar fasinasjón; mér fannst eitthvað svakalega spennandi við manngerðina sem ég var að skrifa um í Stormi. Mér fannst alltaf, þó ég væri ánægður með bókina, að það væri eitthvað ósagt, að það þyrfti að skoða manninn dýpra og frá fleiri hliðum. Og jafnvel láta hann lenda í nýjum ævintýrum. Þetta er ástæðan,“ segir Einar Kárason rithöfundur þar sem við reynum að koma okkur fyrir á Reykjavík Roasters við Brautarholt. Ég var að spyrja Einar hvað hefði komið til, af hverju að taka upp þráðinn með Eyvind Storm mörgum árum síðar en Stormur kom út 2003? Einar er líkast til frægastur fyrir Eyjabókatrílógíu sína. Þá hefur síðasti sagnabálkur hans, sem telur fjórar bækur, þar sem sögusviðið er Sturlungaöld, hlotið mikið og verðskuldað lof. En, uppáhaldið mitt er hins vegar Heimskra manna ráð og svo þessi einstaka bók sem er Stormur. Og nú er komið óbeint framhald af þeirri bók. Passíusálmarnir. Hvar enn er fjallað um Eyvind Jónsson sem kallaður er Stormur. Best að það komi fram strax að ég hef lengi verið einlægur aðdáandi Einars. Ég tel hann með mestu sagnameisturum þjóðarinnar frá upphafi og skemmst er frá því að segja að Passíusálmarnir eru brakandi snilld. Bókin er á mörgum plönum en samt aðgengileg og gott flæði í henni. Og auðvitað alveg ótrúlega fyndin. Ég kútveltist af hlátri við lesturinn. Metnaðarfyllsta persónusköpun Einars Og nú stóð til að þýfga Einar um þessa nýju bók. Ég, þessi þakkláti aðdáandi, vildi endilega splæsa á rithöfundinn bjór, en það var ekki til afgreiðslu þarna, reyndar kom furðusvipur á afgreiðslustúlkuna þegar ég pantaði bjórinn. Þannig að ég keypti fyrir Einar svart kaffi en fékk mér sjálfur tvöfaldan cappuccino. Þegar svarta kaffið kom loks á borðið hafði verið talsvert fyrir því haft, borið fram á nýstárlegan hátt, í einhverri glerkrukku en reyndist svo lapþunnt að sjálfri Guðrúnu frá Lundi hefði blöskrað. Þetta var ekki drekkandi en líkast til eitthvað fínt nýjasta nýtt stælar frá henni Ameríku. Best að það komi bara fram strax: Bókin er brakandi snilld og ég kútveltist um af hlátri við lesturinn. „Þessar verða bara tvær,“ segir Einar þegar ég spyr hann hvort hann ætli þá ekki að henda í þrílógíu með Storminn? Kominn tími á að skrásetja þetta samtal og hætta þessu ófrumlega kaffikjaftæði sem svo mörg misjafnlega eftirminnileg viðtöl hefjast einmitt á. En, ég var ekki svikinn af því að setjast niður með sagnamanninum Einari. „Ég held nú að þetta sé mín metnaðarfyllsta persónusköpun á ferlinum. Sú sem ég hef farið hvað dýpst í. Framan af og mikið af mínu hafa verið kollektívar sögur, það er að segja með mörgum persónum. Og jafnvel kannski ekki einu sinni neinni klárri aðalpersónu. En ég hef kannski farið aðeins meira út í það eftir því sem á hefur liðið, eins og Þórður kakali. Það er týpa sem mér fannst voðalega spennandi. Reyndar held ég að hann og Stormur eigi sitthvað sameiginlegt. En, svo á öðrum sviðum eru þeir gjörólíkir.“ Yfirgengilega dóminerandi manngerð Í þessari bók er rækilega snúið upp á skáldskaparformið. Þetta er að mörgu leyti flókinn snúningur ef maður sekkur sér niður í hann og varla að sjáist til botns. (Ég bið lesandann um að sýna þessum pælingum þolinmæði því þetta skiptir máli.) Persónan Stormur sendir Einari Kárasyni varnarskjal því honum finnst ýmislegt í Stormi fara á milli mála. Og nú verðum við að gera greinarmun á sögumanninum Einari Kárasyni og rithöfundinum Einari Kárasyni. Við erum komin inn á einhverjar óræðar póstmódernískar lendur hvar veruleiki og skáldskapur skarast, því þetta er talsverður snúningur á frásagnarhætti? (En, Einar vill ekki sökkva sér of djúpt í slíkar pælingar. Ekki strax.) „Jájá, ég læt lesandann um að skilja þetta almennilega. Því auðvitað kom þetta einhvers staðar frá. Þetta varnarskjal sem er svona þriðjungur bókarinnar. Einhvern veginn finnst mér það koma frá Stormi sjálfum. Hann talar auðvitað mest þar og er að senda mér sem höfundi tóninn.“ Já, og ekki bara að hann tali heldur leggja ýmsar persónur orð í belg auk athugasemda höfundar. En, maður heyrir í Stormi í gegnum aðrar raddir svo sem konu sinnar sem reyndar fæst við að skrifa ýmis bréf fyrir hans hönd? (Og er þá kominn enn einn snúningurinn á frásagnarháttinn því Stormur sjálfur óhreinkar sig ekki á skriftum.) Passíusálmarnir sverja sig sig að einhverju leyti í ætt við prakkarasögur eða picaresque novel. Og grallarasvipurinn leynir sér hvergi á höfundinum sem blandast inn í söguna sjálfur.visir/gva „Jújú, þetta er náttúrlega maður sem er mjög dómínerandi. Og ég þekki svona menn. Þeir hafa mikil áhrif á alla í kringum sig. Þeirra rödd verður svo yfirgnæfandi. Maður kemur inn í stofu þar sem einn slíkur hefur setið um hríð og dóserað og þá fattar maður að allir eru farnir að tala eins og hann.“ Formið fundið til sérstaklega fyrir Storm Já, það eru nokkur dæmi um slíkt í bókinni. „Já, þess vegna hentar þetta margradda form. Ég notaði þetta margradda form í fyrsta sinn þegar ég skrifaði Þórð kakala. En, ég fann þetta form vegna Storms. Eða, vegna þess söguefnis. Málið er að ég var búinn að hugsa þetta nokkuð lengi, að mig langaði til að skrifa um þessa týpu. Svona mann. Og hafði hann algerlega í huga. Og ég var í miklum vafa um það þá hvort ég ætti að hafa þá bók í 1. persónu, það er að láta hann tala allan tímann eða í 3. persónu. Ef ég er með hann í 1. persónu þá verður þetta svo yfirþyrmandi. Menn munu þurfa að halda fyrir eyrun. Það er ekki hægt að hlusta endalaust á þessa rödd. Það verður að hvíla sig á henni. Hins vegar ef ég hefði þetta í 3. persónu, það er að lýsa þessari persónu utan frá, þá hefði ég ekki hans rödd, hans sjónarmið, hans fordóma og hans sérkennilega húmor og sýn á annað fólk og allskonar hluti. Það var þá sem ég datt um þetta margradda form. Það er að skipta, hafa hann stundum og svo einhverjar aðrar raddir sem segja kannski frá sömu atburðum en frá öðru sjónarhorni.“ Athyglisvert. Ég hef ekki séð þetta notað mikið í íslenskum bókmenntum ef verk þín eru undanskilin -- en þessi er frásagnarhátturinn í Sturlungabókunum og svo Stormi. Margir Danir og fleiri í Skandinavíu hafa nákvæmlega engan húmor fyrir bókinni Stormur, þeim er nánast í nöp við bókina. „Ég er nú ekki alveg klár en ég fann þetta í bók eftir William Faulkner, sem notaði þetta í bókinni As I Lay Dying sem kom út 1929. Þar kom þetta inní nútímabókmenntirnar. Hann er frumherji í þessu.“ Veruleikanum slær saman við skáldskapinn Slagsmál við frásagnarháttinn er nokkuð sem höfundar þurfa að pæla mjög í, fram og til baka, hann skiptir miklu máli en ef við vendum okkar kvæði í kross og hvílum þær pælingar. Á sínum tíma voru miklar diskúsjónir um að þú værir ekki eiginlegur höfundur Djöflaeyjunnar heldur hefðir þú bara pikkað þá sögu upp af segulbandsspólum. Og mér hefur alltaf fundist Stormur vera öðrum þræði viðbrögð við þeirri umræðu. Ég gef mér að þú hafir verið orðinn alveg hundleiður á því þrasi. Og þú gefur þeirri nálgun undir fótinn með að árétta í inngangi að þó höfundur geti átt sér fyrirmyndir að persónum þá breyta þær um eðli og lúta lögmálum skáldskaparins þegar þær eru orðnar persónur í bók. Breytist í allt annað en einhverjar fyrirmyndir, hvort sem þær eru til staðar eða ekki? „Já, það er bara þannig. Sko, þetta voru að einhverju leyti viðbrögð við því að það varð eitthvað svo almennt viðtekið að skáldsögur eins Djöflaeyjutrílógían væri bara frásögn af einhverju tilgreindu lifandi fólki og ekki hafi verið gert neitt annað en breyta nöfnunum. Og oft á tíðum hafa mjög skemmtilegir hlutir komið út úr því. Fólk er að segja mér að ég hafi gleymt hinu og þessu og svo framvegis. Í þeim bókum er til dæmis stofnað íþróttafélag og ég var beðinn um að koma og halda fyrirlestur um stofnun annars íþróttafélags því menn voru sannfærðir um að það væri það félag sem ég var að tala um. Þetta náði hámarki um það bil sem ég ætlaði að fara að skrifa Storm, sem er 2001. Þá var ég búinn að finna þetta form og ég var algjörlega með söguefnið niður neglt. En, þá varð ég eitthvað svo leiður á þessu að ég ákvað að leggja þetta á hilluna. Og skrifa einhverja allt aðra bók. Sem var Óvinafagnaður. Síðan er langur tími liðinn en þetta hætti ekki að leita á huga minn.“ Að finna raunverulegt fólk í bókum En, það sem ég er að fara með þetta er að þjóðaríþrótt Íslendinga er að finna raunverulegt fólk í persónum skáldsagna... „Jújú.“ Einar hefur blendnar tilfinningar gagnvart þeirri þjóðaríþrótt Íslendinga að finna raunverulegt fólk í skáldskap en líkast til hefur enginn höfundur lent svo mjög í þeim svelg og einmitt Einar; nauðugur viljugur.visir/gva Þessi ævisögulega aðferð fer reyndar í taugarnar á mér sem bókmenntafræðingi. Mér finnst viðtökurnar, hvernig fólk túlkar verk út frá sinni verund ólíkt merkilegri brennidepill. En, þetta er sú bókmenntafræði sem er stunduð hér og mér finnst eins og þú sem höfundur hafir á einhvern hátt verið bókstaflega neyddur inná þessar brautir. Sem hefur svo áhrif á frásagnarháttinn? Sögumanninum þröngvað gegn vilja sínum inn í einhverja póstmóderníska martröð hvar skil milli veruleika og skáldskapar verða óljós? „Já. Að einhverju leyti gerist það náttúrlega. Ég er svo sem ekkert öðru vísi en aðrir íslenskir lesendur. Mig langar að vita; hvaðan kemur þetta? Bækur sem ég hef verið upptekinn af ... tökum bara Brekkukotsannál. Svo fréttir maður að það hafi verið til eitthvað sem hét Melkot. Og Magnús í Melkoti. Ég verð þá voðalega upptekinn af því. Fyrirmyndirnar að Bjarti í Sumarhúsum og hvað sem er. Svo náttúrlega sér maður, þegar maður fer að skoða þetta og af því að við erum að tala um Halldór Laxness: Heimsljós. Þar sem hann hefur í höndunum dagbækur Magnúsar Hjaltasonar. Og byggir að einhverju leyti á því. Þá sér maður muninn á skáldskapnum og veruleikanum. Og þessi veruleiki sem höfundar eru að vinna úr, hann verður ekkert merkilegur fyrr en þeir hafa farið um hann sínum höndum. Þetta er náttúrlega mjög spennandi að hugsa um.“ (Ég er farinn að velta því fyrir mér hvort Einar hafi kannski ekkert gaman að því að pæla of mikið í þessu raunverulega fólki í skáldsögunum sínum, þetta er vissulega þrautpínt umræðuefni þegar hann er annars vegar og ég fæ það eiginlega staðfest þegar rithöfundurinn snýr óvænt umræðuefninu að spyrlinum sjálfum, mér.) Að tala vel um fólk er nastí „Það er margt fleira, í sambandi við svona frásagnarlist, dettur mér í hug, af því að ég er að tala við þig. Ég man að þú varst með morgunþátt á einhverri útvarpsstöð ásamt Davíð Þór Jónssyni, sem nú er orðinn Séra.“ Jámm. „Og það var atriði í þættinum, þið tókuð fyrir einhvern nafngreindan mann og töluðuð illa um hann. Kom einhver reiðilestur. Ég held að það hafi ekki sært neinn, þegar maður segist ætla að tala illa um einhvern verður þetta eins og eitthvað grín. En, svo var komið að manni sem gat verið umdeildur og illa þokkaður og þið sögðuð að það væri ekki hægt að tala illa um hann. Og töluðuð vel um hann. Það var alveg svívirðilegt. Þá varð þetta nastí og það held ég að hljóti að hafa sviðið. Þetta er merkilegt með frásagnarlist. Það er langunnið, hvernig þú skilar hlutnum. Og þetta er athyglisvert þegar maður hugsar um frásagnarlist út frá allskonar svona punktum.“ Skrásetjari og viðmælandi í Brautarholtinu. Að tala vel um fólk getur verið nastí og rithöfundurinn er tortrygginn.visir/gva Og hefur beinlínis áhrif á umfjöllunarefnið. En, þú ert fyrst og fremst sagnamaður. Nú nálgast þú þessa persónu aftur en hún hefur ekkert breyst þó þú skiptir að mörgu leyti um bakgrunn. Er þá niðurstaðan að einhverju leyti sú að við séum ekkert endilega afsprengi umhverfis okkar? „Já, það er eitt af því sem sem mér fannst áhugavert að gera. Af því að þetta er karakterstúdía, að ég skrifa í Stormi sögu manns sem heitir Eyvindur Jónsson. Hann á sér tiltekinn bakgrunn sem hann telur hafa mótað sig. Og við skiljum þannig. Hann ólst upp hjá taugaveiklaðri móður sem býr með glæpamanni og utangarðsmanni, í hálfgerðu ræningjabæli. Svo læt ég hann leiðrétta þessa sögu, hann kemur úr allt öðru umhverfi, á sér allt annan bakgrunn. Allt hitt er bara bull. Það mótaði hann ekki neitt en hann er samt nákvæmlega eins. Mér þótti spennandi að vita hvort þetta myndi takast. Og ég sá að ég gæti alveg gert þetta.“ Annar bróðirinn góður og gegn en hinn óttalegur skömbó Og þú hefur velt þessu fyrirbæri töluvert fyrir þér, með umhverfið og svo genin? „Þetta er eitt af því sem hefur mjög leitað á mig. Ég man, eins og þegar ég var að skrifa sögur úr Braggahverfinu, þá er það einhvern veginn algjörlega undirliggjandi að þeir sem fara í hundana gera það vegna þess að þeir eru fæddir á vitlausum stað. Svo löngu seinna, því fólk grunaði að þetta ætti sér fyrirmyndir, sveif á mig maður sem fór að segja mér frá einhverjum bræðrum: Annar var góður og gegn en hinn var óttalegur skömbó. Þeir ólust upp úti á landi hjá rosknum vel stæðum og trúuðum hjónum. Sá sem var skömbó hafði verið ættleiddur en hinn hafði bara verið tekinn í fóstur. Skömbóinn fór svo í mál við bróður sinn. Svo hann fengi engan arf. Og þegar hann var búinn að hafa allt af honum skyldi hann við fjölskylduna, fluttist til Portúgal og tók þar saman við einhverja nektardansmey frá Angóla. Kom svo heim með Panamahatt, fullt af peningum, reykti stóra vindla og var með sólgleraugu. Og fór að hanga á skemmtistöðum og berja mann og annan. Fór náttúrlega með allt í hundana og endaði sem hálfgerður göturæsiskandídat. Ég spurði manninn af hverju hann væri að segja mér þessa sögu? Þá sagði hann, ég held að hann sé einn af þessari fjölskyldu úr Braggahverfinu. Nema, hann var ættleiddur við fæðingu. Höfundarverk Einars er orðið mikið vöxtum. Fyrsta skáldsaga hans, Þetta eru asnar Guðjón, kom út 1981. Stormur kom 2003 og nú hefur hann tekið upp þráðinn þar sem þar var frá horfið.skjámynd af vef forlagsins Þetta fannst mér náttúrlega voðalega sniðugt og skemmtilegt. Svo er í þessu samhengi. Stormur er í báðum bókunum, hann á að vísu sömu konuna og sömu vinina. Lifir svipuðu lífi. Og hann á sama hálfbróðurinn, sá eini úr fjölskyldunni sem fær að ganga á milli. Og hann á gjörólíkan bakgrunn í bókunum, en er samt alveg eins.“ Danir sárir út í Storm Ég verð að fá að spyrja þig út í eitt atriði. Og enn slær saman veruleika og skáldskap. Þú varst tilnefndur fyrir Storm til Bókmenntaverðlauna norðurlandaráðs 2005, þá fyrir Storm. Ég sat á þeim tíma í menningarnefnd DV og hélt ekki vatni vegna þessarar bókar þinnar og rak harðan áróður fyrir því að þú yrðir sæmdur bókmenntaverðlaunum DV, sem varð. Oftast varð ég undir í þessu nefndarstússi. Þá voru þeir sem gerst þekkja búnir að reikna út að röðin hlyti að vera komin að Íslandi með þessi verðlaun. Ég taldi víst að þú yrðir fyrir valinu. En, það var samt eitthvað við það veðmál sem truflaði mig, einhver bakþanki. Ég var sem sagt búinn að láta mér detta í hug að það kynni að reynast þér fótakefli á þeirri leið að óneitanlega er sósjalsystemið í Danmörku haft að háði og spotti öðrum þræði í Stormi. Þó heldur hljóti það nú að teljast smá hugsun að láta það ráða afstöðu sinni til bókmenntaverks. Niðurstaðan varð svo sú að Sjón hlaut verðlaunin og allt gott og blessað með það, fullri virðingu og allt það en þú kemur aðeins inná þetta í Passíusálmunum: „Danir virðast alveg hafa misst áhugann á að bjóða mér í upplestra eða á bókmenntahátíðir eftir að bókin „Storm“ kom út þar í landi, en samkvæmt því sem mátti lesa hjá sumum gagnrýnendum virðist ekki öllum falla í geð að Íslendingar væru að hlæja upp úr skáldsögum um samlanda sína sem nýttu sér til hins ýtrasta velferðarkerfi Dana.“ (bls. 201) Finnst Íslendingum þetta virkilega fyndið? Sko, er virkilega fótur fyrir þessu? „Jájá, það er sannleikskorn í þessu. Bæði náttúrlega kom út gagnrýni og bókin fékk svo sem ágætis viðtökur. En víða, ef það hafa komið út 15 til 20 ritdómar, þá var að minnsta kosti helmingur þeirra litaður af einhverjum sárindum. Bókin var að koma út um svipað leyti og Íslendingar voru að eignast allt í Danmörku: Magasín du Nord og þóttust ætla að kaupa Tívolí.“ Já, Danir voru orðnir verulega pirraðir á Íslendingum á þessum tíma. „Já. Svo fór ég í upplestrarferð og þar stóð fólk upp og sagði: Finnst Íslendingum þetta fyndið? Það var nokkuð magnað. Reyndar, það fyrsta sem ég heyrði um þetta var rétt eftir að bókin kom út. Haustið 2003, þann vetur löngu áður en bókin hafði verið þýdd, þá er ég einhvers staðar niðrí bæ og þá svífur á mig einhver sem ég kannaðist við og vann í Ráðhúsinu. Hvort hann var í borgarstjórn, eða eitthvað. Og segir: Heyrðu, það var norrænn fundur, félagsmálastjórafundur frá norrænu höfuðborgunum, einhverjir félagsmálafrömuðir saman komnir. Og í dinnernum eftir ráðstefnuna segir einhver Íslendingur. Heyrðu, ein alvinsælasta bókin sem kom út í fyrra fjallar um sósjalinn í Danmörku. Og mann sem vefur þar öllum um fingur sér. Og þá datt brosið af Dönunum og einn þeirra hvæsti: Okkur er vel kunnugt um það. Við höfum sett fólk í að gefa okkur skýrslu um þessa bók.“ Einar er fasineraður af Stormi. Menn geta í aðra röndina sagt að þetta sé svindlari og að einhverju leyti tillitslaus skíthæll, en í aðra röndina brilljant maður.visir/gva (Já, sæll og blessaður. Ef þetta er svona í pottinn búið setur það óneitanlega bókmenntaverðlaun, í það minnsta þessi, í nýtt samhengi.) Tillitslaus skíthæll en brilljant maður Sko, nú vill maður ekki segja of mikið, því þetta er spennandi bók, en Stormur er sörvævor; alger landeyða en útsjónarsamur? „Jájájá. Til að byrja með upplifir hann sig svikinn og sniðgenginn. Svo er allri fjölskyldunni hreinlega sparkað úr landi Dana. Og í þeirri stöðu þarft þú að gera eitthvað algjörlega brilljant. Sem reyndar kostar hans nánustu fórnir. En hann situr eftir sem sigurvegari. Á þessum merkilega stað Gellerup-hverfinu sem hann hefur úthúðað alla tíð. Konungur í ríki sínu. Menn geta í aðra röndina sagt að þetta sé svindlari og að einhverju leyti tillitslaus skíthæll, en í aðra röndina brilljant maður. Einn vinur minn sagði að þetta væri svona svindlarasaga og einn yfirlesari sagði að þetta væri metasaga: Skáldsaga sem tala við sjálfa sig.“ Enn komum við að frásagnarhættinum. „Já, ég hef hugsað mikið um hann. Og ef við lítum til einnar fyrstu skáldsögðu heimsins, Don Kíkóta eftir Cervantes, þar er þetta gert þar algerlega brilljant. Þarna er Cervantes en svo er einhver maður sem hefur fundið handrit. Cervantes er að presentera það en þarf svo að vera að diskútera við handritið í leiðinni. Þetta er í byrjun 17. aldar. Hann finnur uppá þessu en einhvern veginn hefur þetta verið vannýtt.“ Reiður ef bókin sem hann skrifaði ekki er gagnrýnd En, mér finnst þú gefa upp boltann með að tengja þessa bók þrasi um tilurð Djöflaeyjuannar, öllu því argaþrasi; þú fléttar inn í sögu af handriti sem berst forlagi óvænt sem svo pússar Storm af öllum mönnum uppí það að þykjast vera höfundur þess? „Jájá, það er mikið sagt frá svoleiðis atburðum í seinni hlutanum af Stormi. Nema, sú saga gerist allt öðru vísi í Passíusálmunum. Í fyrri útgáfunni kemur bókin út sem hún gerir ekki í Passíusálmunum. Og í rauninni fór ég að hugsa út í það löngu seinna að það væri algjörlega úr stíl við Storm. En, ég hafði hins vegar rosalega gaman að segja frá því vegna þess að hann verður svo reiður ef bókin sem hann skrifaði ekki fær krítískar viðtökur. Og upplifir það sem persónulegar árásir á sig. Þetta eru áhugaverðar pælingar.“ En, þú ert þá búinn að skilja við Eyvind Storm? „Já, ég lít svo á. Hann er kominn í örugga höfn. Á 8. hæð í sinni blokk í Gellerup-hverfinu. Og varðandi titilinn, Passíusálmarnir, þetta er hans orðatiltæki um það sem hann vill helst ekki tala um: Ég nenni ekki að fara út í þá passíusálma. En, þá er bókin einmitt tilraun til að fara út í þá Passíusálma sem hann vill helst breiða yfir. En, án þessara Passíusálma sem hann vill ekki fara út í þá skilur maður ekki allt.“ Mikil hrútalykt af þessari bók Þetta er í rauninni hans varnarskjal nema höfundurinn blanda sér inní til að slá varnagla? „Já, þetta er varnarskjal en svo er náttúrlega verið að tala við það stöðugt og bregðast við því sem þar kemur fram. Ég hafði mjög gaman að búa til samskiptin við þennan vin hans, Sigurbjörn Einarsson, þessa fjandvináttu. Sigurbjörn þarf töluvert að fá orðið því annars hefði hallað verulega á hann.“ Töffarinn Kárason. Hann svíkur leðurjakkann seint. Þeim konum sem lásu bókina yfir voru á því að það væri veruleg hrútalykt af bókinni.visir/gva Bókin er á mörgum plönum? Maður sér varla til botns í því? „Yfirlesarar voru svolítið að kvarta yfir því að þetta væri flókið. Ég reyndi að hafa það ekki flókið sem ekki þurfti að vera flókið. En, Stormur er náttúrlega stöðugt að breiða yfir og fegra sinn hlut. Sko, það voru í rauninni fjórir yfirlesarar, þar af tvær konur, og þeim fannst vera svakalega mikil hrútalykt af þessari bók. Ég man að ein sagði að maður væri búinn að fá Storm og hans hroka alveg uppí kok. En, þá tók pabbi hans til máls, Jón Stúart og þá var þeim öllum lokið. Ég hafði gaman að því að fást við hann líka.“ Marxískar hugmyndir um félagsmótun ganga ekki upp Þeir feðgar eru af sama bergi brotnir. En þekkjast ekkert. Hittast aldrei, nema einu sinni í réttarsal. Þannig að ályktun þín sem rithöfundar er Kára Stefáns-leg; þetta býr allt í genunum? „Já, fólk fæðist með einhvers konar karakter. Þetta er reyndar uppgötvun sem flestir gera einhvern tíma á ævinni. Eins og fyrir mig persónulega.Þegar ég eignaðist barn, þá náttúrlega líða einhverjir mánuðir, maður átti von á því að afkomandi manns fæddist og ég gat ómögulega gert mér grein fyrir því hvernig viðkomandi myndi líta út. Hvernig þetta yrði. Svo allt í einu er ég kominn með litla stelpu í fangið. Og þá fatta ég: Auðvitað. Svona er þetta. Tveimur og hálfu ári eignast ég annað barn. Með sömu konunni náttúrlega þannig að þetta kemur alveg úr sömu deiglunni. Ég var aldrei í neinum vafa um hvernig barnið myndi líta út. Svo kemur annar krakki. Alveg gjörólíkur. Ekki bara í útliti heldur karakterinn allt annar. Og þannig hefur það alveg haldist. Svoleiðis að ... maður hafði alist upp við marxískar hugmyndir um félagsmótun. En sá að þetta væri svolítið flóknara en þessi félagsmótunarhugmynd. Sú er ekki reynsla mín. Og að einhverju leyti er þetta byggt á því.“ Hvernig hægt er að vera svona upptekinn af algerlega ómerkilegum manni Eins og þú segir þá heyrum við ýmsar raddir sem koma að viðfangsefninu. Meðal annars Silla, nýja kona Sigurbjörns. Og kannski á óvæntan hátt reynist hún rödd lesandans þegar hún segir: „[...] ég átti alltaf dálítið erfitt með að skilja þetta, hvernig hægt er að vera svona upptekinn af algerlega ómerkilegum manni.“ Þessari spurningu má kannski snúa beint uppá höfundinn? „Það er enginn vandi að fjalla um Storm sem fullkominn ómerking og ómerkilegan sem slíkan, en samt er ég búinn að skrifa um hann tvær sæmilega þykkar bækur. Uppá eitthvað á 6. hundrað síður samtals. Það eru einhverjar víddir þarna sem mér finnst áhugaverðar og er að reyna að koma til skila.“ Og þú ert alveg fasineraður af honum? „Algjörlega. Eins og ég segi. Ég var örugglega í tíu ár búinn að hugsa það að ég þyrfti að skrifa skáldsögu um svona mann. Fann ekki rétta sjónarhornið og svo datt ég niður á það. Yfirleitt hef ég haft klárt í huga atburðarás eða þá skýrt sögusvið. En þarna er hugmyndin bara karakterinn og samskipti hans við annað fólk. Þetta er karakterstúdía. Ég held því fram að ég hafi aldrei lagt eins mikið í eina mannlýsingu.“ Bókmenntir Höfundatal Mest lesið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Fleiri fréttir Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Sjá meira
Bókajólin verða góð. Þó ekki sé nema fyrir eina bók. Einar Kárason hefur skrifað aðra bók um Eyvind Storm. „Það sem dró mig að þessu söguefni í upphafi var kannski ... ég segi ekki aðdáun heldur einhvers konar fasinasjón; mér fannst eitthvað svakalega spennandi við manngerðina sem ég var að skrifa um í Stormi. Mér fannst alltaf, þó ég væri ánægður með bókina, að það væri eitthvað ósagt, að það þyrfti að skoða manninn dýpra og frá fleiri hliðum. Og jafnvel láta hann lenda í nýjum ævintýrum. Þetta er ástæðan,“ segir Einar Kárason rithöfundur þar sem við reynum að koma okkur fyrir á Reykjavík Roasters við Brautarholt. Ég var að spyrja Einar hvað hefði komið til, af hverju að taka upp þráðinn með Eyvind Storm mörgum árum síðar en Stormur kom út 2003? Einar er líkast til frægastur fyrir Eyjabókatrílógíu sína. Þá hefur síðasti sagnabálkur hans, sem telur fjórar bækur, þar sem sögusviðið er Sturlungaöld, hlotið mikið og verðskuldað lof. En, uppáhaldið mitt er hins vegar Heimskra manna ráð og svo þessi einstaka bók sem er Stormur. Og nú er komið óbeint framhald af þeirri bók. Passíusálmarnir. Hvar enn er fjallað um Eyvind Jónsson sem kallaður er Stormur. Best að það komi fram strax að ég hef lengi verið einlægur aðdáandi Einars. Ég tel hann með mestu sagnameisturum þjóðarinnar frá upphafi og skemmst er frá því að segja að Passíusálmarnir eru brakandi snilld. Bókin er á mörgum plönum en samt aðgengileg og gott flæði í henni. Og auðvitað alveg ótrúlega fyndin. Ég kútveltist af hlátri við lesturinn. Metnaðarfyllsta persónusköpun Einars Og nú stóð til að þýfga Einar um þessa nýju bók. Ég, þessi þakkláti aðdáandi, vildi endilega splæsa á rithöfundinn bjór, en það var ekki til afgreiðslu þarna, reyndar kom furðusvipur á afgreiðslustúlkuna þegar ég pantaði bjórinn. Þannig að ég keypti fyrir Einar svart kaffi en fékk mér sjálfur tvöfaldan cappuccino. Þegar svarta kaffið kom loks á borðið hafði verið talsvert fyrir því haft, borið fram á nýstárlegan hátt, í einhverri glerkrukku en reyndist svo lapþunnt að sjálfri Guðrúnu frá Lundi hefði blöskrað. Þetta var ekki drekkandi en líkast til eitthvað fínt nýjasta nýtt stælar frá henni Ameríku. Best að það komi bara fram strax: Bókin er brakandi snilld og ég kútveltist um af hlátri við lesturinn. „Þessar verða bara tvær,“ segir Einar þegar ég spyr hann hvort hann ætli þá ekki að henda í þrílógíu með Storminn? Kominn tími á að skrásetja þetta samtal og hætta þessu ófrumlega kaffikjaftæði sem svo mörg misjafnlega eftirminnileg viðtöl hefjast einmitt á. En, ég var ekki svikinn af því að setjast niður með sagnamanninum Einari. „Ég held nú að þetta sé mín metnaðarfyllsta persónusköpun á ferlinum. Sú sem ég hef farið hvað dýpst í. Framan af og mikið af mínu hafa verið kollektívar sögur, það er að segja með mörgum persónum. Og jafnvel kannski ekki einu sinni neinni klárri aðalpersónu. En ég hef kannski farið aðeins meira út í það eftir því sem á hefur liðið, eins og Þórður kakali. Það er týpa sem mér fannst voðalega spennandi. Reyndar held ég að hann og Stormur eigi sitthvað sameiginlegt. En, svo á öðrum sviðum eru þeir gjörólíkir.“ Yfirgengilega dóminerandi manngerð Í þessari bók er rækilega snúið upp á skáldskaparformið. Þetta er að mörgu leyti flókinn snúningur ef maður sekkur sér niður í hann og varla að sjáist til botns. (Ég bið lesandann um að sýna þessum pælingum þolinmæði því þetta skiptir máli.) Persónan Stormur sendir Einari Kárasyni varnarskjal því honum finnst ýmislegt í Stormi fara á milli mála. Og nú verðum við að gera greinarmun á sögumanninum Einari Kárasyni og rithöfundinum Einari Kárasyni. Við erum komin inn á einhverjar óræðar póstmódernískar lendur hvar veruleiki og skáldskapur skarast, því þetta er talsverður snúningur á frásagnarhætti? (En, Einar vill ekki sökkva sér of djúpt í slíkar pælingar. Ekki strax.) „Jájá, ég læt lesandann um að skilja þetta almennilega. Því auðvitað kom þetta einhvers staðar frá. Þetta varnarskjal sem er svona þriðjungur bókarinnar. Einhvern veginn finnst mér það koma frá Stormi sjálfum. Hann talar auðvitað mest þar og er að senda mér sem höfundi tóninn.“ Já, og ekki bara að hann tali heldur leggja ýmsar persónur orð í belg auk athugasemda höfundar. En, maður heyrir í Stormi í gegnum aðrar raddir svo sem konu sinnar sem reyndar fæst við að skrifa ýmis bréf fyrir hans hönd? (Og er þá kominn enn einn snúningurinn á frásagnarháttinn því Stormur sjálfur óhreinkar sig ekki á skriftum.) Passíusálmarnir sverja sig sig að einhverju leyti í ætt við prakkarasögur eða picaresque novel. Og grallarasvipurinn leynir sér hvergi á höfundinum sem blandast inn í söguna sjálfur.visir/gva „Jújú, þetta er náttúrlega maður sem er mjög dómínerandi. Og ég þekki svona menn. Þeir hafa mikil áhrif á alla í kringum sig. Þeirra rödd verður svo yfirgnæfandi. Maður kemur inn í stofu þar sem einn slíkur hefur setið um hríð og dóserað og þá fattar maður að allir eru farnir að tala eins og hann.“ Formið fundið til sérstaklega fyrir Storm Já, það eru nokkur dæmi um slíkt í bókinni. „Já, þess vegna hentar þetta margradda form. Ég notaði þetta margradda form í fyrsta sinn þegar ég skrifaði Þórð kakala. En, ég fann þetta form vegna Storms. Eða, vegna þess söguefnis. Málið er að ég var búinn að hugsa þetta nokkuð lengi, að mig langaði til að skrifa um þessa týpu. Svona mann. Og hafði hann algerlega í huga. Og ég var í miklum vafa um það þá hvort ég ætti að hafa þá bók í 1. persónu, það er að láta hann tala allan tímann eða í 3. persónu. Ef ég er með hann í 1. persónu þá verður þetta svo yfirþyrmandi. Menn munu þurfa að halda fyrir eyrun. Það er ekki hægt að hlusta endalaust á þessa rödd. Það verður að hvíla sig á henni. Hins vegar ef ég hefði þetta í 3. persónu, það er að lýsa þessari persónu utan frá, þá hefði ég ekki hans rödd, hans sjónarmið, hans fordóma og hans sérkennilega húmor og sýn á annað fólk og allskonar hluti. Það var þá sem ég datt um þetta margradda form. Það er að skipta, hafa hann stundum og svo einhverjar aðrar raddir sem segja kannski frá sömu atburðum en frá öðru sjónarhorni.“ Athyglisvert. Ég hef ekki séð þetta notað mikið í íslenskum bókmenntum ef verk þín eru undanskilin -- en þessi er frásagnarhátturinn í Sturlungabókunum og svo Stormi. Margir Danir og fleiri í Skandinavíu hafa nákvæmlega engan húmor fyrir bókinni Stormur, þeim er nánast í nöp við bókina. „Ég er nú ekki alveg klár en ég fann þetta í bók eftir William Faulkner, sem notaði þetta í bókinni As I Lay Dying sem kom út 1929. Þar kom þetta inní nútímabókmenntirnar. Hann er frumherji í þessu.“ Veruleikanum slær saman við skáldskapinn Slagsmál við frásagnarháttinn er nokkuð sem höfundar þurfa að pæla mjög í, fram og til baka, hann skiptir miklu máli en ef við vendum okkar kvæði í kross og hvílum þær pælingar. Á sínum tíma voru miklar diskúsjónir um að þú værir ekki eiginlegur höfundur Djöflaeyjunnar heldur hefðir þú bara pikkað þá sögu upp af segulbandsspólum. Og mér hefur alltaf fundist Stormur vera öðrum þræði viðbrögð við þeirri umræðu. Ég gef mér að þú hafir verið orðinn alveg hundleiður á því þrasi. Og þú gefur þeirri nálgun undir fótinn með að árétta í inngangi að þó höfundur geti átt sér fyrirmyndir að persónum þá breyta þær um eðli og lúta lögmálum skáldskaparins þegar þær eru orðnar persónur í bók. Breytist í allt annað en einhverjar fyrirmyndir, hvort sem þær eru til staðar eða ekki? „Já, það er bara þannig. Sko, þetta voru að einhverju leyti viðbrögð við því að það varð eitthvað svo almennt viðtekið að skáldsögur eins Djöflaeyjutrílógían væri bara frásögn af einhverju tilgreindu lifandi fólki og ekki hafi verið gert neitt annað en breyta nöfnunum. Og oft á tíðum hafa mjög skemmtilegir hlutir komið út úr því. Fólk er að segja mér að ég hafi gleymt hinu og þessu og svo framvegis. Í þeim bókum er til dæmis stofnað íþróttafélag og ég var beðinn um að koma og halda fyrirlestur um stofnun annars íþróttafélags því menn voru sannfærðir um að það væri það félag sem ég var að tala um. Þetta náði hámarki um það bil sem ég ætlaði að fara að skrifa Storm, sem er 2001. Þá var ég búinn að finna þetta form og ég var algjörlega með söguefnið niður neglt. En, þá varð ég eitthvað svo leiður á þessu að ég ákvað að leggja þetta á hilluna. Og skrifa einhverja allt aðra bók. Sem var Óvinafagnaður. Síðan er langur tími liðinn en þetta hætti ekki að leita á huga minn.“ Að finna raunverulegt fólk í bókum En, það sem ég er að fara með þetta er að þjóðaríþrótt Íslendinga er að finna raunverulegt fólk í persónum skáldsagna... „Jújú.“ Einar hefur blendnar tilfinningar gagnvart þeirri þjóðaríþrótt Íslendinga að finna raunverulegt fólk í skáldskap en líkast til hefur enginn höfundur lent svo mjög í þeim svelg og einmitt Einar; nauðugur viljugur.visir/gva Þessi ævisögulega aðferð fer reyndar í taugarnar á mér sem bókmenntafræðingi. Mér finnst viðtökurnar, hvernig fólk túlkar verk út frá sinni verund ólíkt merkilegri brennidepill. En, þetta er sú bókmenntafræði sem er stunduð hér og mér finnst eins og þú sem höfundur hafir á einhvern hátt verið bókstaflega neyddur inná þessar brautir. Sem hefur svo áhrif á frásagnarháttinn? Sögumanninum þröngvað gegn vilja sínum inn í einhverja póstmóderníska martröð hvar skil milli veruleika og skáldskapar verða óljós? „Já. Að einhverju leyti gerist það náttúrlega. Ég er svo sem ekkert öðru vísi en aðrir íslenskir lesendur. Mig langar að vita; hvaðan kemur þetta? Bækur sem ég hef verið upptekinn af ... tökum bara Brekkukotsannál. Svo fréttir maður að það hafi verið til eitthvað sem hét Melkot. Og Magnús í Melkoti. Ég verð þá voðalega upptekinn af því. Fyrirmyndirnar að Bjarti í Sumarhúsum og hvað sem er. Svo náttúrlega sér maður, þegar maður fer að skoða þetta og af því að við erum að tala um Halldór Laxness: Heimsljós. Þar sem hann hefur í höndunum dagbækur Magnúsar Hjaltasonar. Og byggir að einhverju leyti á því. Þá sér maður muninn á skáldskapnum og veruleikanum. Og þessi veruleiki sem höfundar eru að vinna úr, hann verður ekkert merkilegur fyrr en þeir hafa farið um hann sínum höndum. Þetta er náttúrlega mjög spennandi að hugsa um.“ (Ég er farinn að velta því fyrir mér hvort Einar hafi kannski ekkert gaman að því að pæla of mikið í þessu raunverulega fólki í skáldsögunum sínum, þetta er vissulega þrautpínt umræðuefni þegar hann er annars vegar og ég fæ það eiginlega staðfest þegar rithöfundurinn snýr óvænt umræðuefninu að spyrlinum sjálfum, mér.) Að tala vel um fólk er nastí „Það er margt fleira, í sambandi við svona frásagnarlist, dettur mér í hug, af því að ég er að tala við þig. Ég man að þú varst með morgunþátt á einhverri útvarpsstöð ásamt Davíð Þór Jónssyni, sem nú er orðinn Séra.“ Jámm. „Og það var atriði í þættinum, þið tókuð fyrir einhvern nafngreindan mann og töluðuð illa um hann. Kom einhver reiðilestur. Ég held að það hafi ekki sært neinn, þegar maður segist ætla að tala illa um einhvern verður þetta eins og eitthvað grín. En, svo var komið að manni sem gat verið umdeildur og illa þokkaður og þið sögðuð að það væri ekki hægt að tala illa um hann. Og töluðuð vel um hann. Það var alveg svívirðilegt. Þá varð þetta nastí og það held ég að hljóti að hafa sviðið. Þetta er merkilegt með frásagnarlist. Það er langunnið, hvernig þú skilar hlutnum. Og þetta er athyglisvert þegar maður hugsar um frásagnarlist út frá allskonar svona punktum.“ Skrásetjari og viðmælandi í Brautarholtinu. Að tala vel um fólk getur verið nastí og rithöfundurinn er tortrygginn.visir/gva Og hefur beinlínis áhrif á umfjöllunarefnið. En, þú ert fyrst og fremst sagnamaður. Nú nálgast þú þessa persónu aftur en hún hefur ekkert breyst þó þú skiptir að mörgu leyti um bakgrunn. Er þá niðurstaðan að einhverju leyti sú að við séum ekkert endilega afsprengi umhverfis okkar? „Já, það er eitt af því sem sem mér fannst áhugavert að gera. Af því að þetta er karakterstúdía, að ég skrifa í Stormi sögu manns sem heitir Eyvindur Jónsson. Hann á sér tiltekinn bakgrunn sem hann telur hafa mótað sig. Og við skiljum þannig. Hann ólst upp hjá taugaveiklaðri móður sem býr með glæpamanni og utangarðsmanni, í hálfgerðu ræningjabæli. Svo læt ég hann leiðrétta þessa sögu, hann kemur úr allt öðru umhverfi, á sér allt annan bakgrunn. Allt hitt er bara bull. Það mótaði hann ekki neitt en hann er samt nákvæmlega eins. Mér þótti spennandi að vita hvort þetta myndi takast. Og ég sá að ég gæti alveg gert þetta.“ Annar bróðirinn góður og gegn en hinn óttalegur skömbó Og þú hefur velt þessu fyrirbæri töluvert fyrir þér, með umhverfið og svo genin? „Þetta er eitt af því sem hefur mjög leitað á mig. Ég man, eins og þegar ég var að skrifa sögur úr Braggahverfinu, þá er það einhvern veginn algjörlega undirliggjandi að þeir sem fara í hundana gera það vegna þess að þeir eru fæddir á vitlausum stað. Svo löngu seinna, því fólk grunaði að þetta ætti sér fyrirmyndir, sveif á mig maður sem fór að segja mér frá einhverjum bræðrum: Annar var góður og gegn en hinn var óttalegur skömbó. Þeir ólust upp úti á landi hjá rosknum vel stæðum og trúuðum hjónum. Sá sem var skömbó hafði verið ættleiddur en hinn hafði bara verið tekinn í fóstur. Skömbóinn fór svo í mál við bróður sinn. Svo hann fengi engan arf. Og þegar hann var búinn að hafa allt af honum skyldi hann við fjölskylduna, fluttist til Portúgal og tók þar saman við einhverja nektardansmey frá Angóla. Kom svo heim með Panamahatt, fullt af peningum, reykti stóra vindla og var með sólgleraugu. Og fór að hanga á skemmtistöðum og berja mann og annan. Fór náttúrlega með allt í hundana og endaði sem hálfgerður göturæsiskandídat. Ég spurði manninn af hverju hann væri að segja mér þessa sögu? Þá sagði hann, ég held að hann sé einn af þessari fjölskyldu úr Braggahverfinu. Nema, hann var ættleiddur við fæðingu. Höfundarverk Einars er orðið mikið vöxtum. Fyrsta skáldsaga hans, Þetta eru asnar Guðjón, kom út 1981. Stormur kom 2003 og nú hefur hann tekið upp þráðinn þar sem þar var frá horfið.skjámynd af vef forlagsins Þetta fannst mér náttúrlega voðalega sniðugt og skemmtilegt. Svo er í þessu samhengi. Stormur er í báðum bókunum, hann á að vísu sömu konuna og sömu vinina. Lifir svipuðu lífi. Og hann á sama hálfbróðurinn, sá eini úr fjölskyldunni sem fær að ganga á milli. Og hann á gjörólíkan bakgrunn í bókunum, en er samt alveg eins.“ Danir sárir út í Storm Ég verð að fá að spyrja þig út í eitt atriði. Og enn slær saman veruleika og skáldskap. Þú varst tilnefndur fyrir Storm til Bókmenntaverðlauna norðurlandaráðs 2005, þá fyrir Storm. Ég sat á þeim tíma í menningarnefnd DV og hélt ekki vatni vegna þessarar bókar þinnar og rak harðan áróður fyrir því að þú yrðir sæmdur bókmenntaverðlaunum DV, sem varð. Oftast varð ég undir í þessu nefndarstússi. Þá voru þeir sem gerst þekkja búnir að reikna út að röðin hlyti að vera komin að Íslandi með þessi verðlaun. Ég taldi víst að þú yrðir fyrir valinu. En, það var samt eitthvað við það veðmál sem truflaði mig, einhver bakþanki. Ég var sem sagt búinn að láta mér detta í hug að það kynni að reynast þér fótakefli á þeirri leið að óneitanlega er sósjalsystemið í Danmörku haft að háði og spotti öðrum þræði í Stormi. Þó heldur hljóti það nú að teljast smá hugsun að láta það ráða afstöðu sinni til bókmenntaverks. Niðurstaðan varð svo sú að Sjón hlaut verðlaunin og allt gott og blessað með það, fullri virðingu og allt það en þú kemur aðeins inná þetta í Passíusálmunum: „Danir virðast alveg hafa misst áhugann á að bjóða mér í upplestra eða á bókmenntahátíðir eftir að bókin „Storm“ kom út þar í landi, en samkvæmt því sem mátti lesa hjá sumum gagnrýnendum virðist ekki öllum falla í geð að Íslendingar væru að hlæja upp úr skáldsögum um samlanda sína sem nýttu sér til hins ýtrasta velferðarkerfi Dana.“ (bls. 201) Finnst Íslendingum þetta virkilega fyndið? Sko, er virkilega fótur fyrir þessu? „Jájá, það er sannleikskorn í þessu. Bæði náttúrlega kom út gagnrýni og bókin fékk svo sem ágætis viðtökur. En víða, ef það hafa komið út 15 til 20 ritdómar, þá var að minnsta kosti helmingur þeirra litaður af einhverjum sárindum. Bókin var að koma út um svipað leyti og Íslendingar voru að eignast allt í Danmörku: Magasín du Nord og þóttust ætla að kaupa Tívolí.“ Já, Danir voru orðnir verulega pirraðir á Íslendingum á þessum tíma. „Já. Svo fór ég í upplestrarferð og þar stóð fólk upp og sagði: Finnst Íslendingum þetta fyndið? Það var nokkuð magnað. Reyndar, það fyrsta sem ég heyrði um þetta var rétt eftir að bókin kom út. Haustið 2003, þann vetur löngu áður en bókin hafði verið þýdd, þá er ég einhvers staðar niðrí bæ og þá svífur á mig einhver sem ég kannaðist við og vann í Ráðhúsinu. Hvort hann var í borgarstjórn, eða eitthvað. Og segir: Heyrðu, það var norrænn fundur, félagsmálastjórafundur frá norrænu höfuðborgunum, einhverjir félagsmálafrömuðir saman komnir. Og í dinnernum eftir ráðstefnuna segir einhver Íslendingur. Heyrðu, ein alvinsælasta bókin sem kom út í fyrra fjallar um sósjalinn í Danmörku. Og mann sem vefur þar öllum um fingur sér. Og þá datt brosið af Dönunum og einn þeirra hvæsti: Okkur er vel kunnugt um það. Við höfum sett fólk í að gefa okkur skýrslu um þessa bók.“ Einar er fasineraður af Stormi. Menn geta í aðra röndina sagt að þetta sé svindlari og að einhverju leyti tillitslaus skíthæll, en í aðra röndina brilljant maður.visir/gva (Já, sæll og blessaður. Ef þetta er svona í pottinn búið setur það óneitanlega bókmenntaverðlaun, í það minnsta þessi, í nýtt samhengi.) Tillitslaus skíthæll en brilljant maður Sko, nú vill maður ekki segja of mikið, því þetta er spennandi bók, en Stormur er sörvævor; alger landeyða en útsjónarsamur? „Jájájá. Til að byrja með upplifir hann sig svikinn og sniðgenginn. Svo er allri fjölskyldunni hreinlega sparkað úr landi Dana. Og í þeirri stöðu þarft þú að gera eitthvað algjörlega brilljant. Sem reyndar kostar hans nánustu fórnir. En hann situr eftir sem sigurvegari. Á þessum merkilega stað Gellerup-hverfinu sem hann hefur úthúðað alla tíð. Konungur í ríki sínu. Menn geta í aðra röndina sagt að þetta sé svindlari og að einhverju leyti tillitslaus skíthæll, en í aðra röndina brilljant maður. Einn vinur minn sagði að þetta væri svona svindlarasaga og einn yfirlesari sagði að þetta væri metasaga: Skáldsaga sem tala við sjálfa sig.“ Enn komum við að frásagnarhættinum. „Já, ég hef hugsað mikið um hann. Og ef við lítum til einnar fyrstu skáldsögðu heimsins, Don Kíkóta eftir Cervantes, þar er þetta gert þar algerlega brilljant. Þarna er Cervantes en svo er einhver maður sem hefur fundið handrit. Cervantes er að presentera það en þarf svo að vera að diskútera við handritið í leiðinni. Þetta er í byrjun 17. aldar. Hann finnur uppá þessu en einhvern veginn hefur þetta verið vannýtt.“ Reiður ef bókin sem hann skrifaði ekki er gagnrýnd En, mér finnst þú gefa upp boltann með að tengja þessa bók þrasi um tilurð Djöflaeyjuannar, öllu því argaþrasi; þú fléttar inn í sögu af handriti sem berst forlagi óvænt sem svo pússar Storm af öllum mönnum uppí það að þykjast vera höfundur þess? „Jájá, það er mikið sagt frá svoleiðis atburðum í seinni hlutanum af Stormi. Nema, sú saga gerist allt öðru vísi í Passíusálmunum. Í fyrri útgáfunni kemur bókin út sem hún gerir ekki í Passíusálmunum. Og í rauninni fór ég að hugsa út í það löngu seinna að það væri algjörlega úr stíl við Storm. En, ég hafði hins vegar rosalega gaman að segja frá því vegna þess að hann verður svo reiður ef bókin sem hann skrifaði ekki fær krítískar viðtökur. Og upplifir það sem persónulegar árásir á sig. Þetta eru áhugaverðar pælingar.“ En, þú ert þá búinn að skilja við Eyvind Storm? „Já, ég lít svo á. Hann er kominn í örugga höfn. Á 8. hæð í sinni blokk í Gellerup-hverfinu. Og varðandi titilinn, Passíusálmarnir, þetta er hans orðatiltæki um það sem hann vill helst ekki tala um: Ég nenni ekki að fara út í þá passíusálma. En, þá er bókin einmitt tilraun til að fara út í þá Passíusálma sem hann vill helst breiða yfir. En, án þessara Passíusálma sem hann vill ekki fara út í þá skilur maður ekki allt.“ Mikil hrútalykt af þessari bók Þetta er í rauninni hans varnarskjal nema höfundurinn blanda sér inní til að slá varnagla? „Já, þetta er varnarskjal en svo er náttúrlega verið að tala við það stöðugt og bregðast við því sem þar kemur fram. Ég hafði mjög gaman að búa til samskiptin við þennan vin hans, Sigurbjörn Einarsson, þessa fjandvináttu. Sigurbjörn þarf töluvert að fá orðið því annars hefði hallað verulega á hann.“ Töffarinn Kárason. Hann svíkur leðurjakkann seint. Þeim konum sem lásu bókina yfir voru á því að það væri veruleg hrútalykt af bókinni.visir/gva Bókin er á mörgum plönum? Maður sér varla til botns í því? „Yfirlesarar voru svolítið að kvarta yfir því að þetta væri flókið. Ég reyndi að hafa það ekki flókið sem ekki þurfti að vera flókið. En, Stormur er náttúrlega stöðugt að breiða yfir og fegra sinn hlut. Sko, það voru í rauninni fjórir yfirlesarar, þar af tvær konur, og þeim fannst vera svakalega mikil hrútalykt af þessari bók. Ég man að ein sagði að maður væri búinn að fá Storm og hans hroka alveg uppí kok. En, þá tók pabbi hans til máls, Jón Stúart og þá var þeim öllum lokið. Ég hafði gaman að því að fást við hann líka.“ Marxískar hugmyndir um félagsmótun ganga ekki upp Þeir feðgar eru af sama bergi brotnir. En þekkjast ekkert. Hittast aldrei, nema einu sinni í réttarsal. Þannig að ályktun þín sem rithöfundar er Kára Stefáns-leg; þetta býr allt í genunum? „Já, fólk fæðist með einhvers konar karakter. Þetta er reyndar uppgötvun sem flestir gera einhvern tíma á ævinni. Eins og fyrir mig persónulega.Þegar ég eignaðist barn, þá náttúrlega líða einhverjir mánuðir, maður átti von á því að afkomandi manns fæddist og ég gat ómögulega gert mér grein fyrir því hvernig viðkomandi myndi líta út. Hvernig þetta yrði. Svo allt í einu er ég kominn með litla stelpu í fangið. Og þá fatta ég: Auðvitað. Svona er þetta. Tveimur og hálfu ári eignast ég annað barn. Með sömu konunni náttúrlega þannig að þetta kemur alveg úr sömu deiglunni. Ég var aldrei í neinum vafa um hvernig barnið myndi líta út. Svo kemur annar krakki. Alveg gjörólíkur. Ekki bara í útliti heldur karakterinn allt annar. Og þannig hefur það alveg haldist. Svoleiðis að ... maður hafði alist upp við marxískar hugmyndir um félagsmótun. En sá að þetta væri svolítið flóknara en þessi félagsmótunarhugmynd. Sú er ekki reynsla mín. Og að einhverju leyti er þetta byggt á því.“ Hvernig hægt er að vera svona upptekinn af algerlega ómerkilegum manni Eins og þú segir þá heyrum við ýmsar raddir sem koma að viðfangsefninu. Meðal annars Silla, nýja kona Sigurbjörns. Og kannski á óvæntan hátt reynist hún rödd lesandans þegar hún segir: „[...] ég átti alltaf dálítið erfitt með að skilja þetta, hvernig hægt er að vera svona upptekinn af algerlega ómerkilegum manni.“ Þessari spurningu má kannski snúa beint uppá höfundinn? „Það er enginn vandi að fjalla um Storm sem fullkominn ómerking og ómerkilegan sem slíkan, en samt er ég búinn að skrifa um hann tvær sæmilega þykkar bækur. Uppá eitthvað á 6. hundrað síður samtals. Það eru einhverjar víddir þarna sem mér finnst áhugaverðar og er að reyna að koma til skila.“ Og þú ert alveg fasineraður af honum? „Algjörlega. Eins og ég segi. Ég var örugglega í tíu ár búinn að hugsa það að ég þyrfti að skrifa skáldsögu um svona mann. Fann ekki rétta sjónarhornið og svo datt ég niður á það. Yfirleitt hef ég haft klárt í huga atburðarás eða þá skýrt sögusvið. En þarna er hugmyndin bara karakterinn og samskipti hans við annað fólk. Þetta er karakterstúdía. Ég held því fram að ég hafi aldrei lagt eins mikið í eina mannlýsingu.“
Bókmenntir Höfundatal Mest lesið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“ Bíó og sjónvarp „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ Áskorun Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Lífið Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Lífið Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni Lífið 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Lífið Fleiri fréttir Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Sjá meira