Enski boltinn

Man ekkert eftir 20 mínútna kafla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Janssen liggur í grasinu eftir samstuðið við Mignolet.
Janssen liggur í grasinu eftir samstuðið við Mignolet. Vísir/Getty
Vincent Janssen, sóknarmaður Tottenham og hollenska landsliðsins, fékk þungt höfuðhögg eftir samstuð við Simon Mignolet, markvörð Belgíu, í vináttulandsleik þjóðanna í gær.

Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli en atvikið átti sér stað snemma í leiknum. Janssen er nú mjög tæpur fyrir leik Hollands gegn Lúxemborg í undankeppni HM 2018 um helgina.

„Staða hans er mjög erfið. Læknirinn sagði mér að þetta væri heilahristingur. Hann missti minnið í 20 mínútur og man ekkert hvað gerðist,“ sagði landsliðsþjálfarinn Danny Blind eftir leikinn.

„Við þurfum að fara mjög varlega í þessu máli,“ sagði hann enn fremur.

Janssen er 22 ára og kom til Tottenham frá AZ Alkmaar í sumar fyrir tæplega 19 milljónir punda. Hann hefur í ellefu úrvalsdeildarleikjum skorað eitt mark og lagt upp eitt til viðbótar.

Janssen hefur þó verið byrjunarliðsmaður í aðeins fjórum leikjum af þeim en óvíst er hvort að höfuðmeiðslin geri það að verkum að hann muni einnig missa af næstu leikjum Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×