Innlent

Biskup um kirkjuheimsóknir barna: „Í hæsta máta undarlegt ef kirkjan myndi ekki sinna fræðsluhlutverki sínu“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. vísir/anton brink
Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, var tíðrætt um kirkjuheimsóknir skólabarna í jólapredikun sinni í Dómkirkjunni í morgun. Hún sagði að skírninni og kennslunni sé ekki þvingað upp á fólk.

„Menningararfur okkar Íslendinga byggist meðal annars á kristinni trú. Það er því í hæsta máta undarlegt ef sá arfur væri útilokaður frá næstu kynslóðum. Í ljósi orða Jesús, þar sem hann sendi lærisveinana út í heiminn til að skýra og kenna, væri það líka í hæsta máta undarlegt ef kirkjan myndi ekki sinna fræðsluhlutverki sínu,“ sagði Agnes í predikun sinni.

Nokkuð hefur verið rætt um kirkjuheimsóknir skólabarna að undanförnu, en Píratar fyrst og fremst vilja ekki að börn fari í kirkju á skólatíma og segja það trúboð. Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati og Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafa deilt mjög um málið síðustu vikur.

„Skoðun felur í sér vald þegar hún er farin að stýra því sem gert er eða sagt. Það er enginn Ágústus hér á landi árið 2016 sem segir fólki hvað það á að gera heldur ríkir hér tjáningarfrelsi. Leyfi til að hafa ýmsar skoðanir og láta þær í ljós,“ sagði Agnes og vísaði í kjölfarið í stjórnarskrána.

„Það er meira að segja stjórnarskrárvarið frelsi því í 73. grein stjórnarskrárinnar segir: Allir menn eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×