Erlent

Tugir létust í sjálfsmorðsárás á knattspyrnumóti unglinga

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Flestir hinna látnu voru drengir á unglingsaldri.
Flestir hinna látnu voru drengir á unglingsaldri. vísir/afp
Minnst 34 létust í sjálfsmorðssprengjuárás sem gerð var á knattspyrnuvöll í írösku borginni Iskanderiyah sem gerð var í gær. Sautján hinn látnu eru drengir á aldrinum tíu til sautján ára. Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð sinni á árásinni en í yfirlýsingu samtakanna kemur fram að þau hafi fellt 65 í henni.

Iskanderiyah er um fimmtíu kílómetra frá höfuðborginni Bagdad. Íslamska ríkið hefur staðið fyrir fjölda árása á þessu svæði að undanförnu en aðgerðir þeirra beinast að íröskum hermönnum og súnní múslimum. Að sögn sjúkrahússtarfsmanna særðust um áttatíu til viðbótar við þá sem létust en hluti þeirra er í lífshættulegu ástandi.

Í frétt AFP um málið er sagt frá því að sprengjumaðurinn hafi sennilega verið drengur á unglingsaldri. Sá hafði komið sér fyrir meðal áhorfenda áður en hann lét til skarar skríða. Árásin átti sér stað í lok fótboltamóts fyrir unglinga en hún var gerð þegar verið var að afhenda verðlaun fyrir mótið.

„Um allan heim þá sameinar knattspyrna fólk. Það er mjög sorglegt þegar fólk, sem fer saman á völlinn, verður að fórnarlömbum slíks ofbeldis líkt og hér um ræðir,“ segir í yfirlýsingu frá Gianni Infantino forseta alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×