Erlent

Yrði jafn lengi og Kohl

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Angela Merkel var tvístígandi um framtíð sína þar til á sunnudaginn að hún tók af skarið og tilkynnti að hún vildi vera kanslari eitt kjörtímabil enn.
Angela Merkel var tvístígandi um framtíð sína þar til á sunnudaginn að hún tók af skarið og tilkynnti að hún vildi vera kanslari eitt kjörtímabil enn. vísir/epa
Um helgina tók Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, af skarið um að hún stefni að því að vera kanslari Þýskalands fjórða kjörtímabilið í röð.

„Ég hugsaði bókstaflega endalaust um þessa ákvörðun,“ sagði hún á blaðamannafundi á sunnudaginn. „En ég er tilbúin í slaginn á ný.“

Ekki er víst að Sósíaldemókrataflokkurinn, sem er í stjórnarsamstarfi með Kristilega demókrataflokknum, tefli fram leiðtoga sínum, Sigmar Gabriel varakanslara, gegn Merkel.

Ákvörðun um það verður væntan­lega tekin í janúar, en Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, er einn þeirra sem gætu komið til greina.

Systurflokkur CDU í Bæjaralandi, CSU, fagnar ákvörðun Merkel en boðar að þessu sinni hugsanlegan ágreining við hana í kosningabaráttunni, að minnsta kosti í málefnum innflytjenda.

Horst Seehofer, sem er forsætisráðherra í Bæjaralandi og leiðtogi CSU, hefur lengi verið einn helsti andstæðingur innflytjendastefnu kanslarans. Hann sagði að þrátt fyrir ágreininginn muni hann styðja Merkel.

Fyrir Merkel gæti þó hörð andstaða frá AfD-flokknum orðið erfiðust viðureignar, en flokkurinn er einn þeirra hægri þjóðernisflokka sem náð hafa töluverðu flugi víða í Evrópu með því að ala á ótta við flóttafólk og útlendinga almennt.

AfD, sem fullu nafni heitir Alternative für Deutschland eða Valkostur fyrir Þýskaland, hefur samkvæmt skoðanakönnunum undanfarið haft mikið fylgi, vel á annan tug prósenta, og mælist yfirleitt þriðji stærsti flokkur landsins.

Beatrix von Storch, einn forsprakka AfD, sakar Merkel hreinlega um að bera ábyrgð á dauða fjölda flóttafólks sem drukknað hefur á leiðinni yfir Miðjarðarhafið.

„Þegar AfD kemst á sambandsþingið þá þurfum við rannsóknarnefnd um Merkel, sem skoðar öll hennar lög- og stjórnarskrárbrot,“ sagði von Storch á sunnudag.

Merkel er orðin 62 ára og verði hún kanslari eitt kjörtímabil enn, þá mun hún að því loknu hafa setið í embættinu í 16 ár, jafn lengi og Helmut Kohl flokksbróðir hennar sem til þessa hefur verið kanslari Þýskalands lengur en nokkur annar frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×