Enski boltinn

Mourinho hringdi í Kante og reyndi að fá hann til United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
N'Golo Kante vildi frekar fara til Chelsea.
N'Golo Kante vildi frekar fara til Chelsea. vísir/getty
N'Golo Kante, miðjumaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, segir frá því að José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, reyndi að fá hann til sín á Old Trafford í sumar áður en hann ákvað að ganga í raðir Chelsea.

Mourinho hringdi í miðjumanninn sem var algjörlega magnaður með Englandsmeisturum Leicester á síðustu leiktíð en hann stóð uppi sem meistari aðeins tveimur árum eftir að hann komst upp úr B-deildinni í Frakklandi með Caen.

Þrátt fyrir að ræða við Mourinho um mögulegt samstarf ákvað Kante að semja við Chelsea sem borgaði Leicester 32 milljónir punda fyrir leikmanninn.

„Það var ótrúlegt að fá símtalið frá Mourinho þó það væri nú búið að vara mig við honum. Ég hlustaði á það sem hann hafði að segja og ástæður þess að ég ætti að fara til United. Á þessum tíma vissi ég ekki hvort ég ætti að vera áfram hjá Leicester eða fara til Chelsea,“ segir Kante.

„Ég fór langt í samningaviðræðum við United en á þeim tíma hafði ég góða tilfinningu fyrir Antonio Conte,“ segir N'Golo Kante.

Eftir að missa af Kante sneri United sér alfarið að Paul Pogba sem það keypti frá Juventus fyrir metfé eða 89 milljónir punda. Mourinho og félagar á Old Trafford áttu ágætis sumarglugga en auk Pogba keypti United Zlatan Ibrahimovic, Eric Bailly og Henrikh Mkhitaryan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×