Innlent

Dæmdur fyrir blygðunarbrot gegn barnabarni sínu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Maðurinn játaði brot sitt á rannsóknarstigi.
Maðurinn játaði brot sitt á rannsóknarstigi. Myndvinnsla/Garðar
Héraðdsómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í sextíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barnabarni sínu.

Maðurinn var til vara einnig ákærður fyrir brot gegn barnverndarlögum með því að hafa árið 2015 brotið gegn barnabarni sínu sem þá var fjögurra ára gömul. „Er hann leyfði barninu að skoða kynfæri sín innan undir nærbuxum, með vasaljósi undir sæng sem hann var með yfir sér [...], en með háttsemi sinni sýndi ákærði B lostugt og ósiðlegt athæfi, sem var til þess fallið að særa blygðunarsemi hennar,“ segir í dómnum.

„Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.“

Sakavottorð mannsins er hreint og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingarinnar, sem og þess að hann játaði brotið á rannsóknarstigi.

„Ákærði var undir áhrifum er brotið var framið en það afsakar ekki gjörðir hans, sbr. 17. gr. almennra hegningarlaga. Til þyngingar horfir að brot ákærða beindist gegn ungu barnabarni hans sem honum var treyst fyrir.“

Ásamt sextíu daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar var maðurinn einnig dæmdur til að borga barnabarni sínu 300 þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×