Erlent

Tugir liggja í valnum eftir öflugan skjálfta í Ekvador

Bjarki Ármannsson skrifar
Brú hrundi við borgina Guayaquil í jarðskjálftanum.
Brú hrundi við borgina Guayaquil í jarðskjálftanum. Vísir/EPA
Að minnsta kosti 77 eru látnir og rúmlega 500 slasaðir eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir Ekvador í nótt. Skjálftinn mældist 7,8 að stærð og er sá öflugasti í landinu frá árinu 1979.

Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá eru skemmdir eftir jarðskjálftann miklar, tugir bygginga hafa hrunið og að minnsta kosti ein brú.

„Við erum að reyna að gera hvað við getum, en það er nánast ekkert hægt að gera,“ er haft eftir Gabriel Alcivar, bæjarstjóra Pedernale skammt frá upptökum skjálftans. „Það var ekki bara eitt hús sem hrundi, heldur heill bær.“

Rafael Correa, forseti Ekvadors, er á leið aftur til landsins frá Ítalíu. Hann hefur lýst yfir neyðarástandi í landinu og biðlar til landsmanna að standa saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×