Skoðun

Opin umræða

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar
Nýlega kvað Úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp þann úrskurð að Landsneti bæri að veita Landvernd aðgang að skýrslunni, High Voltage Underground Cables in Iceland, sem samin var fyrir Landsnet um háspennulínur í jörðu.

Íslensk útgáfa skýrslunnar var birt á vef Landsnets en ítarlegri útgáfa á ensku var ekki birt opinberlega þar sem í henni var að finna viðskiptaupplýsingar sem Landsnet var ekki tilbúið að veita aðgang að sökum útboðshagsmuna sem hefðu getað haft áhrif á flutningskostnað raforku. Úrskurðarnefndin féllst á þetta sjónarmið og voru þessar upplýsingar fjarlægðar úr skýrslunni áður en hún var birt opinberlega.

Báðar skýrslurnar má finna á vef okkar www.landsnet.is

Samtalið skiptir máli

Hjá Landsneti leggjum við áherslu á gagnsæi í störfum okkar og kappkostum að miðla áreiðanlegum og réttum upplýsingum. Það eru lagðar ríkar skyldur á Landsnet um kynningu á þeim verkefnum sem til umfjöllunar eru hverju sinni og mun Landsnet kappkosta að uppfylla þær skyldur hér eftir sem hingað til.

Það er stefna okkar að sýna frumkvæði í samskiptum við hagsmunaaðila og við viljum að slík samskipti einkennist af hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja. Og þar skiptir samtalið öllu máli – það samtal viljum við eiga við Landvernd.

Við tökum undir það sjónarmið Landverndar að ekki megi tefja uppbyggingu raforkukerfisins með leyndarhyggju og leynimakki. Slík vinnubrögð viðgangast ekki hjá Landsneti og við erum tilbúin í umræður um skýrsluna og uppbyggingu raforkukerfisins í heild hvenær sem er.

Við höfum í gegnum tíðina boðið fulltrúum frá Landvernd að koma og ræða við okkur og ítrekum það boð hér – verið velkomin til okkar á Gylfaflötina.




Skoðun

Sjá meira


×