Innlent

Grunaður um tvær nauðganir: Töldu ekki ástæðu til að fara fram á gæsluvarðhald við fyrri handtöku

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sex dögum eftir fyrri handtökuna var seinna brotið tilkynnt
Sex dögum eftir fyrri handtökuna var seinna brotið tilkynnt Vísir
Lögreglan á Suðurnesjum taldi ekki ástæðu til þess að fara fram á gæsluvarðhald yfir ungum manni sem handtekinn var þann 25. júlí síðastliðinn grunaður um nauðgun. Sex dögum síðar var maðurinn aftur handtekinn vegna gruns um nauðgun, þá á höfuðborgarsvæðinu, og var í framhaldinu farið fram á gæsluvarðhald.

Sú spurning hefur vaknað meðal almennings, sérstaklega eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir manninum var birtur á vef Hæstaréttar í fyrradag, hvort ekki hafi verið tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald við fyrri handtöku.

„Við töldum ekki ástæðu til þess, miðað við aðstæður í því máli. Þetta er alltaf skoðað í hvert skipti,“ segir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við Vísi.

Í skýrslutöku eftir fyrri handtökuna sagðist sá grunaði meðal annars vera með ofsareiði og að hann ætti pantaðan tíma á göngudeild geðdeildar vegna geðrænna vandamála. Í vitnisburði þolanda komu einnig fram lýsingar á öðru grófu ofbeldi, meðal annars að sá grunaði hafi stappað á hálsi hennar.

Sex dögum eftir fyrri handtökuna, þann 31. júlí, var seinna brotið tilkynnt og maðurinn aftur handtekinn. Í kjölfarið fór lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fram á gæsluvarðhald yfir honum. Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir manninum og verður hann að óbreyttu í gæsluvarðhaldi til 19. ágúst og mun hann gangast undir geðrannsókn.

Nokkuð ýtarlegar lýsingar á kynferðisbrotunum sem maðurinn er grunaður um koma fram í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í umfjöllun Fréttatímans um málið hefur komið fram að maðurinn sé nítján ára og stúlkurnar báðar fimmtán ára.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×