Skoðun

Lífeyrir aldraðra frá TR tekinn við innlögn á hjúkrunarheimili!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Þegar eldri borgari fer á hjúkrunarheimili tekur Tryggingastofnun ríkisins lífeyri hans til greiðslu kostnaðar við dvölina á hjúkrunarheimilinu. Þetta er líkast eignaupptöku. Allur lífeyrir frá TR er tekinn. Þeir, sem hafa meira en rúmar 74 þúsund í tekjur, mega sæta því, að það sem umfram er sé af þeim tekið fyrir dvalarkostnaði þar til náð er markinu tæpar 355 þúsund krónur. Þar stöðvast „eignaupptakan“. Síðan eru eldri borgurunum skammtaðir vasapeningar, 53 þúsund krónur að hámarki, en þessi greiðsla er tekjutengd. Vasapeningarnir eru skertir ef viðkomandi eldri borgari hefur t.d. örlitlar vaxtatekjur. Aldraðir fá ekki einu sinni að hafa vasapeningana í friði!

Eldri borgararnir, sem fara á hjúkrunarheimili, eru ekki spurðir að því, hvort þeir samþykki að lífeyrir þeirra sé tekinn af þeim í framangreindum tilgangi. Nei, þeim er einfaldlega tilkynnt þetta. Allar greiðslur til þeirra frá TR eru felldar niður strax í næsta mánuði eftir innlögn! Annars staðar á Norðurlöndunum er annar háttur hafður á. Þar fá eldri borgararnir lífeyrinn í sínar hendur en síðan greiða þeir sjálfir eða aðstandendur kostnaðinn við dvölina á hjúkrunarheimilinu.Það er mat lögfræðinga, að það sé mannréttindabrot að rífa lífeyrinn af eldri borgurum á þennan hátt. Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík hefur rætt þetta fyrirkomulag við lögfræðinga og þeir telja, að það standist hvorki lög né stjórnarskrá að rífa lífeyrinn af eldri borgurum á þann hátt sem gert er.

Stjórnvöld hafa íhugað að breyta þessu en ráðamenn hjúkrunarheimilanna hafa lagst gegn breytingu. Að sjálfsögðu eiga þeir ekki að ráða þessu. Við ættum að hafa sama hátt á þessu og önnur norræn ríki.

Við þurfum að breyta þessu strax. Það er niðurlægjandi fyrir eldri borgara að þurfa að sæta því fyrirkomulagi, sem nú er viðhaft.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×