Menning

Lára Jóhanna hleypur í skarðið fyrir Vigdísi Hrefnu eftir slysið

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Leikkonan Lára Jóhanna Jónsdóttir hleypur í skarðið fyrir Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur sem slasaðist illa á lokaæfingu leikverksins Hleyptu þeim rétta inn fyrr í þessari viku.
Leikkonan Lára Jóhanna Jónsdóttir hleypur í skarðið fyrir Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur sem slasaðist illa á lokaæfingu leikverksins Hleyptu þeim rétta inn fyrr í þessari viku. Vísir/Valli
„Lára Jóhanna Jónsdóttir leikkona kemur til með að að taka við aðalhlutverkinu fyrir Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur, sem því miður getur ekki tekið þátt vegna slyssins,“ segir Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri, og bætir við að fólki hafi eðlilega brugðið þegar slysið varð.

Frumsýna átti hrollvekjuna Hleyptu þeim rétta inn í leikstjórn Selmu Björnsdóttir á stóra sviði Þjóðleikhússins í dag, en frumsýningunni hefur verið frestað þar sem Vigdís Hrefna Pálsdóttir, aðalleikkona sýningarinnar, ristarbrotnaði á vinstri fæti og hlaut tvöfalt hælbrot á hægri fæti eftir hátt fall á stóra sviðinu, fyrir framan nær fullan sal á lokaæfingu í Þjóðleikhúsinu síðastliðið þriðjudagskvöld.

Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona slasaðist illa á lokaæfingu í Þjóðleikhúsinu síðastliðið þriðjudagskvöld.
„Vigdís var að klifra í leikmyndinni þegar slysið varð, en hún hefur gert það oft áður, enda hluti af sýningunni, hún féll tvo og hálfan metra og lenti á millipalli á fótunum og í kjölfarið féll hún áfram aðra eins hæð, og skall flöt á sviðið,“ segir Ari.

Lára Jóhanna Jónsdóttir leikkona hefur tekið þátt í fjölda leikverka bæði í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu undanfarin ár en um þessar mundir leikur Lára Jóhanna í leikritinu Sporvagninn Girnd ásamt aðalhlutverki í sýningunni Í hjarta Hróa hattar sem hefur fengið virkilega góðar viðtökur og hefur nú þegar verið bætt við fjölda sýninga vegna eftirspurnar. Búast má við að allt fari á fullt á næstu dögum til að koma Láru inn í hlutverk Vigdísar Hrefnu fyrir frumsýningardag.

„Við þurftum að fresta frumsýningunni vegna slyssins og komum til með að frumsýna verkið 10. mars næstkomandi,“ segir Ari Matthíasson bjartsýnn á framhaldið.


Tengdar fréttir

Blóðið flæðir í Þjóðleikhúsinu

Blóðbankabíllinn mætti fyrir utan Þjóðleikhúsið þar sem leikarar og aðrir starfsmenn létu gott af sér leiða og gáfu blóð. Um þessar mundir rær Þjóðleikhúsið á ný mið með leikritinu Hleyptu þeim rétta inn sem frumsýnt verður






Fleiri fréttir

Sjá meira


×