Innlent

Grunaðir um innflutning á spítti

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Þrír íslenskir karlmenn hafa verið í gæsluvarðahaldi í viku vegna gruns um innflutning á sterkum fíkniefnum. Fíkniefnin voru í pakka sem kom að utan en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði fylgst með pakkanum í nokkurn tíma.

Mennirnir, sem eru á þrítugsaldri, voru handteknir á fimmtudaginn í síðustu viku er þeir sóttu pakkann hjá flutningsfyrirtæki í Reykjavík en hann innihélt um eitt kíló af metamfetamíni. Efnið var í formi kristalla. Pakkinn kom að utan en lögreglan hafði fylgst með honum í nokkurn tíma.

Mennirnir þrír voru allir útskurðaðir í gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hafa verið í einangrun á Litla hrauni í rúma viku. Gæsluvarðhaldið rann út í dag  og var ekki talin þörf á frekari einangrun vegna rannsóknarhagsmuna, að sögn lögreglu.

Metamfetamín er betur þekkt sem spítt á götunni en það er hættulegra og sterkara en amfetamín sem er það eiturlyf sem hefur sést meira á Íslandi í gegn um árin. Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar segir lögreglu þó hafa tekið eftir aukningu á metamfetamíni á Íslandi undanfarna mánuði.

Málið er enn í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hjá tollayfirvöldum. Rannsóknin gengur vel að sögn Gríms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×