Byggingaráform Icelandair Hotels um stækkun Hótels Reykjahlíðar hefur tekið verulegum breytingum frá því sem lagt var upp með í upphafi og með því hefur verið tekið fullt tillit til athugasemda landeigenda. Landeigendur í Reykjahlíð 2 og 4 undirrituðu stuðningsyfirlýsingu vegna áforma Icelandair hótela í nóvember.
Þetta kemur fram í skriflegum athugasemdum Magneu Þóreyjar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Icelandair hótela, vegna frétta blaðsins um byggingaráform fyrirtækisins í Reykjahlíð. Þar hefur verið greint frá því að byggingarreitur nýs hótels er langt fyrir innan verndarlínu sérlaga um vernd Mývatns og Laxár, eins að sveitarstjórn Skútustaðahrepps var klofin í afstöðu til þess að leyfa skipulagsvinnu á reitnum og óánægju íbúa vegna skerts útsýnis til vatnsins og hugsanlegra neikvæðra umhverfisáhrifa. Magnea segir að frétt af óánægju íbúa sé byggð á úreltum gögnum [fundargerðum Skipulagsnefndar frá því í mars] og vísar til stuðningsyfirlýsingar landeigenda í Reykjahlíð 2 og 4.
Magnea skrifar að hótelið sé á fallegum stað og tengingin við náttúruna skipi stóran sess í þeim áformum sem uppi eru um hótelið. Því verði hugað að öllum umhverfisþáttum í hvívetna og þá sérstaklega frárennslismálum.
„Meðvitað er hæð viðbygginga stillt í hóf til að útsýni að vatninu frá aðalvegi haldist svo gott sem óskert frá því sem nú er. Viðbygging er því einungis á tveimur hæðum og heildarhæð hennar töluvert lægri en heimilt er í núverandi deiliskipulagi. Metnaður er lagður í að heildarútlit hótelsins verði svæðinu til framdráttar frá því sem nú er fremur en hitt, og að látlaust, umhverfisvænt útlit þess verði annarri framtíðaruppbyggingu við Mývatn til eftirbreytni, þar sem umhverfisvæn sjónarmið eru höfð að leiðarljósi,“ skrifar Magnea.
Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2016
