Innlent

Vill meina að strætóferð geti orðið rússnesk rúlletta fyrir fólk með ofnæmi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Astma- og ofnæmissjúklingar leggjast gegn því að gæludýrum verði hleypt í strætisvagna líkt og tillaga er um. Varaformaður félags þeirra segir þetta þýða að strætóferð geti orðið rússnesk rúlletta fyrir fólk með ofnæmi. Stjórnarmaður í stjórn Strætó bs. segir að reynt verði að taka tillit til allra aðila ef af verður.

Stjórn Strætó bs. er með það til skoðunar að leyfa fólki að koma með gæludýr með sér í strætisvagna sína. Slík er ekki leyfilegt í dag en af verður þurfa dýrin annað hvort að vera í búri eða í bandi.

„Það hafa komið fram margar óskir og áhugi að gæludýraeigendur geti komist með dýrin sín til læknis, í heimsóknir og þeir sem eiga ekki bíl og hafa ekki efni á leigubíl eða komast ekki á milli staða, að þeir fái tækifæri til að fara með strætó,“ segir Sverrir Óskarsson bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Kópavogi og stjórnarmaður í stjórn Strætó.

Vinnuhópur á vegum Strætó hefur farið ítarlega yfir málið og skilaði hann skýrslu um það í byrjun sumars. Meðal annars var leitað eftir áliti frá Astma- og ofnæmisfélagi Íslands sem leggst gegn því að dýrunum verði hleypt inn í vagnana. „Við náttúrulega erum að vinna fyrir okkar félagsmenn og þeir eru mjög margir að skrifa og hringja og eru mjög mótfallnir þessu og bara óttast þetta mjög mikið,“ segir Hólmfríður Ólafsdóttir varaformaður Astma- og ofnæmisfélags Íslands.

Hólmfríður segir töluvert um að félagsmenn hafi samband til að ræða málið enda valdi það þeim miklum áhyggjum. „Þetta verður svolítið rússnesk rúlletta. Ég meina fólk hefur náttúrulega dáið úr ofnæmissjokki, það er bara, þó svo að það sé kannski ekki mjög algengt með dýr en þeir sem eru með mikið ofnæmið þetta er stór óttafaktór í þeirra lífi. Þannig að auðvitað vilja þeir reyna einhvern veginn að komast hjá því,“ segir Hólmfríður

Sverrir á von á að stjórn Strætó fari yfir málið í haust og þá verði hugsanlega farið í gang með tilraunaverkefni. Hann segir að reynt verði að taka tillit til allra aðila. „Við ætlum að stíga þetta rólega þannig að ég held að það geti verið góð sátt um þetta,“ segir Sverrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×