Erlent

Vill draga Blair fyrir dómstóla vegna Íraks

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Fjölmargir hafa kallað eftir réttarhöldum yfir Blair vegna þátttöku Bretlands í Íraksstríðinu.
Fjölmargir hafa kallað eftir réttarhöldum yfir Blair vegna þátttöku Bretlands í Íraksstríðinu. Nordicphotos/AFP
Bretland Alex Salmond, þingmaður Skoska þjóðarflokksins í breska þinginu og fyrrverandi fyrsti ráðherra Skotlands, leitar eftir stuðningi annarra stjórnmálaflokka í Bretlandi við að endurvekja tillögu um að draga Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir dómstóla fyrir að hafa afvegaleitt þing og þjóð vegna innrásarinnar í Írak árið 2003.

Tilefnið er útgáfa Chilcot-skýrslunnar um hlutverk Bretlands í Íraksstríðinu. Skýrslan kemur út í júní og telur Salmond að þar megi finna sönnunargögn sem renni stoðum undir það sjónarmið að draga eigi Blair fyrir dómstóla.



Alex Salmond
Blair er sagður hafa afvegaleitt breska þingið og almenning í umræðum um stríðið, auk þess að hafa sett fram órökstuddar fullyrðingar um stríðið og gert leynilegt samkomulag við George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, fyrir stríðið um að koma Saddam Hussein, þáverandi Íraksforseta, frá völdum.

Dómstólaleiðin sem Salmond kallar eftir er aldagömul og hefur ekki verið beitt frá árinu 1806. Með henni færi breska lávarðadeildin með hlutverk dómstóls. Yrði sú leið farin er Salmond samt sem áður þeirrar skoðunar að Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn ætti einnig að taka málið upp.

„Mín skoðun er sú að best væri að fara með málið fyrir Alþjóðastríðsglæpadómstólinn því að þar getur saksóknarinn sjálfur haft frumkvæði að aðgerðum byggðum á viðeigandi sönnunargögnum sem ég tel að muni koma fram í Chilcot-skýrslunni,“ sagði Salmond í samtali við The Times.

Reynt hefur verið að fá réttað yfir Blair frá 2004 en það hefur enn engan árangur borið. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×