Erlent

Yfirvöld í Kína fjarlægja tímaritsgrein um málfrelsi

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Xi Jinping, forseti Kína, krafðist þess að fjölmiðlar sýndu honum og yfirvöldum  tryggð.
Xi Jinping, forseti Kína, krafðist þess að fjölmiðlar sýndu honum og yfirvöldum tryggð. Mynd/GettyImages
Eitt af stærstu tímaritum Kína hefur harðlega gagnrýnt Kommúnistaflokkinn sem fer með völdin þar í landi. Þessi gagnrýni kemur í kjölfar þeirrar ritskoðunar sem forseti landsins og leiðtogi Kommúnistaflokksins, Xi Jinping, stuttu eftir að hann krafðist tryggðar fjölmiðla við sig og flokkinn.

Fjölmiðillinn Caixin greindi fyrir stuttu frá því hvernig netyfirvöld í Kína hafi fyrirskipað það að viðtal sem fjallaði um málfrelsi skildi fjarlægt. Í viðtalinu er talað við fræðimanninn og álitsgjafann, Jiang Hong. Þar segir hann að álitsgjafar líkt og hann sjálfur eigi að búa yfir frelsi til þess að gefa Kommúnistaflokknum og stofnunum leiðbeiningar varðandi efnahagsleg-, pólitísk- og samfélagsleg mál.

Eftir þessa ritskoðun birti tímaritið mynd af munni sem búið er að líma fyrir til þess að mótmæla ritskoðun ríkisstjórnarinnar og netyfirvalda í Kína.

Í viðtali sem tekið var við Jiang Hong eftir ritskoðunina, segir hann gjörðir ríkisstjórnarinnar hreint ótrúlegar. Segist Hong ekki hafa séð neitt ólöglegt við greinina sem birtist upprunalega. Það eina sem hafi verið að sé það að stjórnvöld hafi orðið óstyrk við birtingu greinarinnar.

Vegið að starfsstétt blaðamanna

David Bandurski, sérfræðingur í kínverskri blaðamennsku, segir að blaðamenn þar í landi séu á nálum eftir þessa ritskoðun. Þetta mál hafi átt sér mánaðar aðdraganda, eða allt frá því að forseti landsins, Xi Jinping, sagði blaðamenn þurfa elska Kommúnistaflokkinn og verja.

„Þetta er erfitt starfsumhverfi fyrir blaðamenn að vita ekki hvað má skrifa og hvað ekki. Þetta er stórt vandamál fyrir þessa starfsstétt. Hvernig eigum við að sinna hlutverki okkar gagnvart samfélaginu þegar við vitum ekki hvað má skrifa?“ segir Bandurski í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×