Erlent

16 ára ætlaði að sprengja upp tvo skóla í Danmörku

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Sextán ára stúlka, sem handtekin var í janúar, hefur verið ákærð fyrir vörslu sprengiefna og að ætla að sprengja upp tvö skóla í Danmörku. Samkvæmt ákærunni reyndi hún að smíða sprengjur og ætlaði að sprengja þær í skólum gyðinga í Kaupmannahöfn og Farevejle. Stúlkan var fimmtán ára þegar hún var handtekin í Kundby.

Auk stúlkunnar er réttað yfir 24 ára manni sem hefur ferðast til Sýrlands og barist fyrir hryðjuverkahópa. Honum hefur verið lýst sem vini hennar og er grunaður um að hjálpa stúlkunni við skipulagningu hryðjuverkanna. Þau eru ákærð samkvæmt hryðjuverkalöggjöf Danmerkur og eiga því lífstíðarfangelsi yfir höfði sér.

Þau halda bæði fram sakleysi sínu.

Samkvæmt DR hefur stúlkan gert tilraunir með sprengjur og var hún að reyna að útvega sér dísilolíu og áburði. Það má nota til að gera sprengjur. Þá fundust leiðbeiningar til sprengjugerðar á heimili hennar.

Mál þeirra hefur verið flutt fyrir luktum dyrum og er þetta í fyrsta sinn sem upplýsingar um málið verða opinberar. Fjölmiðlar í Danmörku segja að stúlkan hafi nýlega snúist til íslamstrúar og að hún hafi viljað snúa fleiri Dönum.

Talið er að þau hafi reynt að búa til sprengiefnið TATP, sem meðal annars var notað í árásunum í París í nóvember, sem þau ætluðu að nota í Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×