Vel gekk að sprengja gamalt tundurdufl sem fannst á Starmýrartanga við Álftafjörð um helgina. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar sendi lið á svæðið í gær eftir að vegfarandi hafði rekist á duflið í sandfjörunni.
Myndefnið sem fylgir fréttinni var tekið á vettvangi. Líkt og sést, myndaðist ansi stór gígur eftir sprenginguna en talið er að duflið hafi innihaldið um 225 kíló af TNT-sprengiefni.
Gígurinn sem myndaðist var ansi myndarlegur.Mynd/LandhelgisgæslanDuflið var sennilega breskt og úr seinni heimsstyrjöldinni. Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sprengjudeildarinnar, útskýrði fyrir Vísi í gær að tundurdufl hefðu nokkrum sinnum fundist á í sandfjörunni á Starmýrartanga, sem er um átta kílómetra löng.
Duflin hafa þá rekið á land í brimi á stríðsárunum og grafist í sandinn. Þar færast þau lítið og varðveitast vel vegna súrefnisleysis.