Innlent

María Björk varð fyrir kynferðisofbeldi 14 ára: "Stríðið um sálu mína mun ég vinna“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
María Björk Helgadóttir.
María Björk Helgadóttir.
María Björk Helgadóttir er 22 ára Mosfellingur. Hún ákvað nýverið að opna blogg þar sem hún segir frá bataferli sínu eftir kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir þegar hún var fjórtán ára. Ofbeldið átti sér stað árið 2009 og segir María að árin 2009 – 2012 hafi verið henni sérstakleg erfið.

„Ég segi oft við fólk að ég vorkenni því að hafa kynnst mér eða þekkt mig á þeim tíma, enda var ég hálf sálarlaus á þeim tíma, þröngsýn og tilfinningar þekkti ég varla, sjálfstraustið var ekkert og virðingin var engin,“ skrifar María Björk.

„Ég varð fyrir grófu kynferðisofbeldi í maí 2009 af ókunnugum manni þegar ég fór uppí bíl og þáði far með honum. Ég sagði engum frá þessu og ætlaði mér aldrei að gera það. Ég fór í afneitun og auðvitað var þetta mér að kenna. Af hverju bauð ég uppá þetta eins og opin bók, mamma hafði margoft sagt við mig frá því að ég var barn að aldrei ætti ég að fá far hjá ókunnugum, ALDREI!“

María Björk segir skömmina hafa verið mikla og haft mikil áhrif á hana sjálfa og samskipti hennar við fólkið í kringum hana.

„Ég hélt ekki lengi út þar sem ég brotnaði saman tilfinningalega og það var farið að sjást á einkunnum mínum í skóla og eins skapgerðinni minni. Ég var ótrúlega fljót upp og tilbúin að rífast við alla, var alltaf í vörn þrátt fyrir að enginn væri að ráðast til atlögu á mig.

Í ágúst 2009 sagði ég síðan frá. Ég skammaðist mín, þetta var mér að kenna, ég var ómögulega dóttirin sem hlustaði ekki á ráð foreldranna, svarti sauðurinn sem var búin að skemma líf allra núna.“

Leið eins og skemmdu epli

María Björk leitaði hjálpar í Barnahúsi, en hafði ekki trú á því að sálfræðingur gæti hjálpað henni og segir hún að henni hafi liðið eins og skemmdu epli.

„Það tók mig ekki langan tíma að búa til nýjan karakter úr mér, ég bjó mér til grímu sem ég setti upp hvert sem ég fór, þó að það væri bara þegar ég fór útúr herberginu og mætti mömmu á ganginum.

Ég bjó til stelpu sem var sjálfsörugg og tilfinningalaus, þessi stelpa grét ekki og gat stungið aðra manneskju með orðum og framkomu án þess að sjá eftir því. Ég var svo ánægð með þessa grímu að ég hélt henni og ég varð hún.“

Hún segir þó að gríman hafi ekki falið allt og að lokum hafi vanlíðan hennar orðið svo mikil að hún reyndi að fyrirfara sér.

„Innst inni sat lítil stelpa sem grét allar stundir, gat ekki horft í spegil án þess að fyllast viðbjóði og hver sál skipti hana máli, svo miklu máli að sjálfsmorð hljómaði langbesti kosturinn til að leyfa hinum að fá frið.Frið fyrir mér, ónýta eplinu sem lét foreldra mína gráta og spyrja sig hvað þau hefðu gert vitlaust. Bróðurinn sem vissi ekki hvernig hann átti að nálgast mig án þess að eiga það á hættu að ég mundi lemja frá mér.

Ég ákvað því að hætta að telja svefntöflurnar og klára þetta, þeirra vegna. Sjálfselskan var engin, ég hélt ég væri að gera þetta af ást, ég var að bjarga fólkinu frá mér.

Þegar ég vaknaði á spítalanum og sá grátbólgin augu fjölskyldu minnar áttaði ég mig á því að þetta var það síðasta sem þau vildu, auðvitað vildu þau ganga með mér í gegnum allan storminn og leiða mig út úr honum. Þarna fann ég að mig langaði í bata og verða sterkari og betri sem nokkru sinni fyrr, ég kvaddi grímuna og gamla María dó.

Þar með hófst bataferlið.“

Reyndi að finna huggun í heimi fíkniefna

María segir að eftir sjálfsvígstilraunina hafi hún þráð að ná bata en hafi ætlast til of mikils of fljótt og orðið óþolinmóð. Hún leiddist því inn í heim fíkniefna. Hún biðlar þó til lesenda sinna að leita ekki í þessa átt.

„Þarna hélt ég að ég væri búin að fá og finna tækifæri á bataleið sem virkaði strax svo að ég prufaði. Áhyggjurnar hurfu reyndar, en bara í smá stund á meðan efnið var í líkamanum. Mér fannst merkilegt líka hvað ég var með mikið sjálfstraust þegar eitrið flæddi um æðar mér.

Ég fór svo sem ekki langt ofan í þennan fíkniefnaheim en alveg nógu langt til að sjá margt ljótt en ég var blind á það á þessum tíma. Mér fannst þetta bara fín leið á meðan á því stóð en um leið og djammið var búið sökk ég enn lengra niður í vondar hugsanir og líðan sem ég hélt reyndar að væri ekki möguleiki á að gæti orðið verri. Ég fór ekki í harða neyslu, kynntist aldrei sprautum eða jafn hörðum efnum og margir fíklar festast í.

Sem betur fer var ég stoppuð af snemma á þessari braut því ég veit ekki hvernig ég hefði endað hefði ég ekki haft yndislegt fólk í kringum mig, fólk sem vísaði mér veginn til baka. Eftir að þessu tímabili lauk fór ég loksins að hlusta á elsku sálfræðinginn minn í Barnahúsi og orð hennar og ráð voru ekkert svo vitlaus eftir allt saman og vá, hún á stóran hluta í mér í dag.“

María segir að bataferlið eftir nauðgun sé langhlaup og að einungis sé hægt að taka eitt skref í einu.

„Ef þú ert á byrjunarstigi í bata þínum, vil ég segja þér að þú munt brosa aftur og þér á eftir að líða betur og átt eftir að sjá bjarta framtíð þó að það líti kannski ekki út fyrir það í dag.“

María segir fyrstu skref í átt að bata hafa verið erfið. Hún hafi átt erfitt með að fara fram úr rúminu á morgnanna. Hún hafi þó náð hægt og rólega að vinna úr vanlíðan sinni. Meðal annars hjálpaði það henni að nota ekki orðið nauðgun. Orðið sjálft hafði svo mikil áhrif á hana að hún skipti um skóla vegna þess hve frjálslega skólafélagar hennar fóru með orðið í gríni.

Vinkonur hennar hafi þó fengið hugmynd um að skipta orðinu út fyrir annað sem hjálpaði henni.

„Ég nefndi við þær hversu vont var að heyra þetta orð og þá kom ein þeirra með snilldarhugmynd! Við notuðum annað orð. Í mínu tilfelli notuðum við orðið kartafla, nauðgun=kartafla. Þetta hjálpaði mér mikið og ég gat talað meira um atburðinn með því að breyta orðinu yfir í annað orð, því að hitt orðið skar svo í hjarta mitt.“

Ætlar að sigra stríðið um sálu sína

María segir að fyrstu árin hafi henni fundist orðið sálarmorð viðeigandi yfir þau áhrif sem nauðgunin hafði á hana. Hún hafi þó nú skipt um skoðun.

„Í dag finnst mér ég ekki geta tengt lengur við þetta orð og ég leiðrétti ættingja og vini þegar þeir nota þetta orð um reynslu mína.

Minn gerandi myrti ekki mína sál hann fær einfaldlega ekki leyfi til þess. Hann skar virkilega stóran skurð á sál mína og svo stórt var sárið að mér blæddi næstum út en bara næstum því.“

Hún segist jafnframt vera meira en einungis þolandi kynferðisofbeldis og að lokum verði sárið sem ofbeldið skildi eftir sig að öri.

„Enginn getur í raun barist í þessu stríði með mér en þó hafa verið góðir aðilar sem hafa leiðbeint mér um skrefin sem ég þarf að taka og munu þeir vonandi halda því áfram. Ég ætla mér að standa uppi sem sigurvegari sama hvað ! Því þegar þú tókst þér valdið yfir líkama mínum og reyndir að myrða sál mína í leiðinni stóð ég á móti þér, og stríðið um sálu mína mun ég vinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×