Enski boltinn

Þrír aðalréttir á boðstólnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Spurning hvort Mourinho og Wenger lendi í átökum á ný.
Spurning hvort Mourinho og Wenger lendi í átökum á ný. vísir/getty
Arsene Wenger mætir með Skytturnar sínar á Old Trafford í dag. Arsenal hefur ekki sótt gull í greipar United-manna á Old Trafford undanfarin ár en síðasti sigur liðsins á þessum velli kom 17. september 2006. Emmanuel Adebayor skoraði þá eina mark leiksins.

Arsenal er með 24 stig í 4. sæti deildarinnar en með sigri fara Skytturnar á toppinn, a.m.k. tímabundið. Leikur Arsenal og Man Utd fer fram í hádeginu en klukkan þrjú hefst leikur Southampton og toppliðs Liverpool. Man Utd er í 6. sæti deildarinnar með 18 stig og þarf nauðsynlega á sigri að halda til að halda í við toppliðin.

Dortmund í eltingarleik

Ólíkt síðustu árum eru það ekki Bayern München og Dortmund sem hafa verið í aðalhlutverki í þýsku deildinni það sem af er tímabili. Nýliðar Red Bull Leipzig og Hoffenheim, undir stjórn hins 29 ára Julians Nagelsmann, hafa stolið senunni í vetur.

Þrátt fyrir það hefur Bayern farið vel af stað undir stjórn Carlos Ancelotti og er ósigrað eftir fyrstu tíu umferðirnar í þýsku deildinni. Meistararnir hafa þó aðeins hikstað að undanförnu og gert þrjú jafntefli í síðustu fimm leikjum sínum.

Gengi Dortmund er hins vegar langt undir væntingum. Hið skemmtilega lið Thomas Tuchel hefur aðeins náð í 18 stig í fyrstu tíu umferðunum og má ekki við því að tapa fleiri stigum í toppbaráttunni. Sigur á Bayern á heimavelli yrði kærkominn og myndi senda sterk skilaboð.

Aftur eitt núll?

Fyrstu mánuðir Zinedine Zidane í starfi knattspyrnustjóra Real Madrid hafa gengið eins og í sögu. Liðið hefur unnið 25 af 31 deildarleik undir stjórn Zidanes, gert fimm jafntefli og aðeins tapað einum leik. Það tap kom gegn nágrönnunum í Atlético Madrid.

Eins og svo margir leikir Atlético Madrid endaði hann með 1-0 sigri strákanna hans Diegos Simeone. Það sem meira er, þá er þetta eini deildarleikurinn undir stjórn Zidanes þar sem Real Madrid hefur mistekist að skora. Í hinum 30 leikjunum hefur Real Madrid skorað 94 mörk, eða rúm þrjú mörk að meðaltali í leik.

Stóra spurningin er hvort Atlético Madrid takist að endurtaka leikinn og gera lærisveinum Zidanes grikk. Og Atlético Madrid þarf á sigri að halda til að missa Real Madrid og Barcelona ekki of langt fram úr sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×