Innlent

Grunnskólakennarar samþykktu nýjan kjarasamning

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Loftsson er formaður Félags grunnskólakennara.
Ólafur Loftsson er formaður Félags grunnskólakennara. Vísir/Ernir
Meirihluti félagsmanna í Félagi grunnskólakennara samþykkti nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í atkvæðagreiðslu sem hófst mánudaginn 5. desember og lauk klukkan 16:00 í dag. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var eftirfarandi að því greint er frá á vef Kennarasambands Íslands:

Atkvæði greiddu: 4.100    90,69%

Já:    2.260    55,12%

Nei:    1.759    42,90%

Auðir:    81    1,98%

Skrifað var undir samninginn þann 29. nóvember síðastliðinn en grunnskólakennarar höfðu tvívegis á árinu fellt nýja kjarasamninga.

 

Það var því verið að reyna í þriðja skiptið á árinu að ná samningum og hefur það nú tekist, en eins og sést á niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar eru kjarasamningurinn nú ekki óumdeildur þar sem rúmlega 40 prósent félagsmanna höfnuðu samningnum.

Í aðdraganda þess að skrifað var undir samninginn sagði fjöldi kennara upp störfum en Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, sagðist vona að samningurinn yrði til þess að kennarar myndu draga uppsagnirnar til baka.

Gildistími samningsins er frá 1. desember 2016 til 30. nóvember 2017.


Tengdar fréttir

Kennarar greiða atkvæði

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning grunnskólakennara, sem skrifað var undir 29. nóvember síðastliðinn, hófst á hádegi í gær. Hún stendur til klukkan fjögur, mánudaginn 12. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×