Innlent

Laga verkferla vegna seinagangs

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Meint brot var framið árið 2005.
Meint brot var framið árið 2005. mynd/visir
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir að til standi að bæta verkferla innan embættisins til þess að koma í veg fyrir að sakamál dragist á langinn. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Sem kunnugt er lét Hæstiréttur fjárdráttarmál Hannesar Smárasonar falla niður í síðustu viku vegna seinagangs af hálfu ákæruvaldsins sem skilaði greinargerð til Hæstaréttar fimm dögum eftir skilafrest. 

Vísir greindi frá því á föstudaginn í síðustu viku að seinagangurinn hefði að sögn ríkissaksóknara orsakast af mistökum og manneklu. Sigríður segir í svari við fyrirspurn Vísis að póstlagning greinargerðarinnar hefði meðal annars valdið töfunum. Í stað þess að póstleggja greinargerðina hefði verið skilvirkara að boðsenda hana beint til Hæstaréttar.

Sjá einnig: Mistök og mannekla ástæða þess að gögn bárust Hæstarétti seint

Samkvæmt svari Sigríðar við fyrirspurn RÚV eiga nýju verkferlarnir að koma í veg fyrir að seinagangur af þessu tagi endurtaki sig. Hún boðaði breytinguna á fundi í embættinu í dag. Í verkferlunum felst meðal annars að hver og einn saksóknari skuli bera ábyrgð á boðsendingum greinagerða sinna til Hæstaréttar.



Rannsókn á málinu hófst 2009

Hannes Smárason var ákærður fyrir fjárdrátt vegna millifærslu tæplega þriggja milljarða króna af reikningi FL Group inn á reikning eignarhaldsfélagsins Fons árið 2005. Hann var á þeim tíma stjórnarformaður FL Group.

Rannsókn málsins hófst í ársbyrjun 2009 en Hannes var ekki ákærður fyrr en í október 2013. Málið var tekið upp í héraði 2015 en héraðsdómur sýknaði Hannes af ákærunni þann 18. febrúar. Málinu var í kjölfarið skotið til Hæstaréttar.

Þegar Hæstiréttur felldi niður málið í síðustu viku voru því ellefu ár liðin frá meintu broti.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×