Erlent

Hjálpargögn hafa enn ekki borist stríðhrjáðum íbúum Aleppo

Heimir Már Pétursson skrifar
Stór hluti Aleppo er rústir einar.
Stór hluti Aleppo er rústir einar. Vísir/Getty
Vöruflutningabifreiðar með hjálpargögn til stríðshrjáðra íbúa Aleppo borgar í Sýrlandi hafa ekki komist til borgarinnar frá því samið var um vopnahlé milli stríðandi fylkinga fyrir sex dögum.

Fjöldi vöruflutningabíla með hveiti sem duga á 159 þúsund manns og matarskammta fyrir 35 þúsund manns hafa beðið við landamæri Tyrklands og Sýrlands frá því á þriðjudag eftir leyfi til að halda til Aleppo. En vopnahlé fyrir milligöngu utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands tók gildi sl. mánudag og hangir á bláþræði. Ekki bætti úr skák að Bandaríkjamenn gerðu loftárásir á herbúðir Sýrlandsstjórnar í norðurhluta Sýrlands í gær fyrir mistök. En Bandaríkjamenn töldu sig vera að ráðast á vígi ISIS eins og friðarsamkomulagið gerir ráð fyrir að þeir geri ásamt Rússum.

Árásunum var hætt þegar Rússar létu Bandaríkjamenn vita að þeir kynnu að hafa ráðist á sýrlenska hermenn og ökutæki þeirra. Háttsettur embættismaður í stjórn Barack Obama forseta harmaði mistökin í yfirlýsingu.

Það er prófsteinn á vopnahléð að alþjóðsamfélaginu takist að koma hjálpargögnum til Aleppo, annar stærstu borgar Sýrlands. Þar ríkir algert hörmungarástand og borgin er klofin í tvennt því sýrlenski stjórnarherinn ræður örðum helmingi hennar og sveitir uppreisnarmanna hinum.

Borgin er nánast í rúst og íbúarnir hafa lítið sem ekkert að bíta og brenna. Eitt meginmarkmiða vopnahlésins er að koma stríðandi fylkingum að samningaborði til að binda enda á borgarastríðið í Sýrlandi sem staðið hefur yfir í fimm ár. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum segist vona að eitthvað af hjálpargögnunum komist til Aleppo í dag.

Vopnahéð hefur verið brotið af báðum aðilum með smábardögum hér og þar og ef ekki tekst að koma hjálpargögnum til stríðshrjáðra íbúanna né koma á alvöru friðarviðræðum í bráð, kann vopnahléð að renna út í sandinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×