Innlent

Þór Bæring er fjáðari en hann hugði

Jakob Bjarnar skrifar
Nafnið Þór Bæring Ólafsson er eitt þeirra nafna sem finna má í leitarvél danska skattsins; hann er meðal þeirra sem á gleymdan danskan bankareikning.
Nafnið Þór Bæring Ólafsson er eitt þeirra nafna sem finna má í leitarvél danska skattsins; hann er meðal þeirra sem á gleymdan danskan bankareikning. visir/vilhelm/getty/pjetur
Þór Bæring Ólafsson er einn þeirra sem finna má í leitarvélinni þar sem býðst að fletta upp í til að sjá hvort tiltekið nafn er skráð fyrir gömlum bankareikningi í dönskum banka.

„Já, ég er búinn að fá ansi mörg símtöl vegna þessa. Ég á Vísi það að þakka,“ segir Þór í samtali við Vísi. Og honum er skemmt. Vísir birti í gær frétt sem vakti mikla athygli þar sem fram kemur að fjölmargir, þar á meðal Íslendingar, eigi gamla bankareikninga í dönskum bönkum. Heildarupphæðin sem finna má á þessum reikningum, sem ekki hafa verið hreyfðir í tvö ár eða meira, er veruleg eða 1,7 milljarður íslenskra króna.

Verður að bregða sér til Kaupmannahafnar

Eitt þeirra nafna sem finna má í leitarvélinni er Þór Bæring Ólafsson. Þór er landsþekktur maður, starfaði lengi sem útvarpsmaður en nú á hann ferðaskrifstofuna Gamanferðir í félagi við WOWair. Hann segist ekki vera búinn að kanna það hversu mikið fé er inni á reikningnum.

„Ég verð að skella mér í júlefrokost-ferð til Kaupmannahafnar í desember og nota þá tækifærið; hvort maður geti keypt sér lakkrís fyrir þetta eða hvað,“ segir Þór hlæjandi. Og það ber vel í veiði því Gamanferðir bjóða einmitt uppá slíkar ferðir þegar nær dregur jólum. „Ég verð að fara sem fararstjóri.“

Spennandi að vita hversu margar danskar krónur leynast á reikningnum

Þór segir ástæðuna fyrir þessu vera þá að á árunum 2007 til 2009 var hann búsettur í Kaupmannahöfn. Þá stofnaði hann bankareikning í Jyske bank. „Þar eru greinlega einhverjar danskar krónur eftir. Og spennandi að vita hvers margar þær eru,“ segir Þór. Ástæðan fyrir veru Þórs í kóngsins Köben var sú að kona hans var þar við nám, í háskólanum í Kaupmannahöfn, og hann var við að gæta barna og buru og leika sér, eins og hann segir.

Þór vissi svo sem af þessum reikningi en taldi að hann væri galtómur og afskrifaður. „Ég efa það stórlega að þarna sé fúlgur fjár að finna. En danska kerfið getur vel verið þannig að það hafi verið skellt inn á mig barnabótum eða einhverju slíku.“

Þór telur þetta lýsa nokkrum muni á dönskum yfirvöldum og þeim íslensku. „Ég veit ekki hvort íslensk stjórnvöld myndu láta fólk vita; vitjið peninganna ykkar áður en ríkið tekur þá.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×