Enski boltinn

Best að vera í rauðu ef þú ætlar að vinna ensku úrvalsdeildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sadio Mané verður í rauðu á mánudaginn.
Sadio Mané verður í rauðu á mánudaginn. vísir/getty
Liverpool og Manchester United, tvö af sigursælustu félögum í sögu efstu deildarinnar á Englandi, mætast á mánudagskvöldið í stórleik áttundu umferðar úrvalsdeildarinnar. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Sky Sports, sem sýnir leikinn í Bretlandi, er búið að skíra kvöldið Red Monday þar sem heimatreyjur beggja liða eru rauðar og þau hafa lengi verið erkifjendur.

Þessi sögufrægu fótboltafélög eiga samtals 38 Englandsmeistaratitla, en United er sigursælast allra liða með 20 titla. Þau eru ein stærsta ástæða þess að rauði liturinn er litur sigurvegaranna á Englandi.

Dreifing titlanna í ensku úrvalsdeildinni eftir litum á heimabúningum.mynd/skjáskot
Blár í öðru sæti

Í aðdraganda leiksins gerði Sky Sports úttekt á lit heimabúnings sigurvegara í efstu deild enska boltans frá stofnun hennar árið 1889. Þar kemur í ljós að 44,7 prósent sigurvegara efstu deildarinnar hafa spilað í rauðu en auk Liverpool og United unnu Nottingham Forest og Arsenal sinn skerf af titlum.

Blái liturinn er næst mest áberandi með 25,3 prósent. Sigurvegarar síðustu leiktíðar, Leicester, spila í bláu og þá hafa lið eins og Everton og Chelsea unnið deildina.

Hvítur kemur næstur með 20,2 prósent og fjólublár er í fjórða sæti þökk sé velgengni Burnley, West Ham og Aston Villa á árum áður. Wolves í gylltu er með þrjú prósent og Newcastle í svörtu með tvö prósent.

Everton stóð uppi sem sigurvegari þegar fyrst var leikið í gömlu 1. deildinni tímabilið 1890/1891 en sá titill kemur ekki inn í jöfnuna. Everton spilaði nefnilega í laxableiku það tímabilið áður en félagið skipti yfir í blátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×