Enski boltinn

Tvö mörk frá varamönnum tryggðu Liverpool sigur á AC Milan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roberto Firmino fagnar marki sínu að hætti hússins.
Roberto Firmino fagnar marki sínu að hætti hússins. vísir/epa
Tvö mörk í seinni hálfleik tryggðu Liverpool sigur á AC Milan á International Champions Cup í nótt. Leikið var á Levi's Stadium í Kaliforníu.

Sadio Mané komst næst því að skora í fyrri hálfleik en Gabriel í marki AC Milan varði fast skot hans.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gerði sex breytingar í hálfleik og þær hleyptu nýju lífi í leik liðsins.

Einn varamannanna, Divock Origi, kom Liverpool yfir með góðu skoti á 59. mínútu.

Það var svo annar varamaður, Roberto Firmino, sem skoraði seinna mark Liverpool á 73. mínútu eftir góðan undirbúning frá Sheyi Ojo.

Fleiri urðu mörkin ekki og Liverpool fagnaði 2-0 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×