Skoðun

Umræðan um heilbrigðiskerfið

Jón H. Guðmundsson skrifar
Það er heldur betur fróðlegt að fylgjast með umræðunni um heilbrigðiskerfið um þessar mundir, þökk sé Kára Stefánssyni. Nú þegar undirskriftasöfnunin hefur staðið um hríð er rétt að minna á umræðuna sem var fyrri hluta síðastliðins árs. Þá einkenndist hún af þeim erfiðlekum sem verkföll heilbrigðisstétta olli. Þá var kvartað hástöfum yfir því ástandi og hvað það kæmi illa við viðkomandi stofnanir, sérstaklega var kvartað undan rekstrinum og erfiðleika með mönnun.

Í þessari umræðu var sjaldnast minnst á sjúklinga og hvað ástandið hefði á andlegu og líkamlega líðan þeirra. Þetta ástand fjaraði svo út er líða tók á árið. Fór umræðan þá að snúast um fjármál heilbrigðiskerfisins og sitt sýndist hverjum. Þegar farið var að bera okkar kerfi við þau erlendu og því haldið fram að okkar kerfi væri með þeim betri í heimi er rétt að staldra við. Það er varla hægt að halda því fram að kerfi sem ekki getur þjónustað veika og slasaða einstaklinga sé þess heiðurs aðnjótandi. Að einstaklingur geti ekki fengið greiningu á sínum veikindum, komist ekki í aðgerð, eigi það á hættu að vera sendur heim og komist ekki í eftirmeðferð. Að ekki sé nú talað um að bíða í eitt til tvö ár eftir því að komast í aðgerð. Svona er nú okkar ágæta heilbrigðiskerfi. Ef það er með þeim bestu, hvernig eru þá þau erlendu?

Svo má spyrja áfram, hverjir hafa stjórnað því og með hvaða markmiði? Er það mat stjórnenda að kerfi sem sinnir sjúklingum ekki betur en raun ber vitni, flokkist með þeim betri í heimi? Hvers vegna var nánast aldrei minnst á líðan sjúklinga í allri þessari umræðu?

Á að snúast um líðan fólks

Í grein sem Kári Stefánsson ritaði í upphafi undirskriftar sinnar, komst hann svo að orði, svo vitnað sé orðrétt í grein hans. „Nefndin virðist gleyma því að Páll er ekki að tala um göt í gegnum fjöll eða sendiráð í Tókíó heldur SJÚKDÓMA FÓLKSINS Í LANDINU, SÁRSAUKA, KVÍÐA, ANGIST OG LÍF OG DAUÐA“. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé svo afgerandi fullyrðingu á prenti frá manni sem er svo tengdur heilbrigðiskerfinu.

Þessi málaflokkur á ekki að snúast um stofnun, kerfi, rýni eða rúm, heldur líðan þess fólks sem einhverra hluta vegna varð svo ólánsamt að greinast með sjúkdóm eða hefur orðið fyrir slysum. Koma því til hjálpar, lina þjáningar þess og sjá til að það nái bata. Það er sárgrætilegt til þess að hugsa að stjórnvöld hverju sinni skuli ekki sjá sóma sinn í því að trygga nægilegt fjármagn til að koma í veg fyrir allar þær þjáningar sem sjúklingar þurfa að ganga í gegnum, að ekki sé talað um ótímabæran dauða.

Verst af öllu er að vita, að með auknu fjármagni er hægt að koma í veg fyrir þetta ástand. Þess vegna er ekki annað hægt en að dást að framgöngu Kára Stefánssonar. En nú heyrist sú rödd frá Kára að undirskriftin sé ekki að skila þeim árangri sem hann vonaðist eftir. Telur hann að það þurfi verulegan fjölda til viðbótar svo það takist. Einu hefur þetta átak nú þegar skilað, aukinni umræðu og að hún eigi að snúast um líðan fólks. Ef fer sem horfir að ekki safnist nægilega margar undirskriftir verður að taka undir með Kára að sá hluti þjóðarinnar sé sáttur við heilbrigðiskerfið eins og það er í dag, því miður. Takið ykkur nú tak og skrifið undir, við viljum meira fjármagn til heilbrigðiskertisins.




Skoðun

Sjá meira


×