Skoðun

Undir einu merki

Björn Óli Hauksson skrifar
Isavia stendur nú á tímamótum. Undanfarin ár hefur farið fram mikil skipulagsvinna innan fyrirtækisins, ólík fyrirtæki hafa verið sameinuð undir einn hatt og starfsemin verið endurskilgreind. Starfsfólk Isavia hefur unnið frábært starf og kann ég því hinar bestu þakkir fyrir. Til að undirstrika betur þær breytingar sem fyrirtækið hefur gengið í gegnum og til að horfa samhent fram á veginn hefur merki Isavia nú verið breytt.

Það hefur verið mikill vöxtur í starfsemi Isavia undanfarin ár enda hefur ferðamönnum sem sækja landið heim fjölgað gríðarlega. Sú þróun mun halda áfram. Isavia hefur staðið fyrir umfangsmikilli markaðssetningu Keflavíkurflugvallar undanfarin ár og nú er svo komið að í sumar munu 25 flugfélög lenda á flugvellinum og samkvæmt spá stefnir farþegafjöldinn á þessu ári í um 6,3 milljónir. Þessi mikli vöxtur hefur kallað á fjölgun starfsfólks og á næstu misserum mun starfsfólki fjölga enn frekar. Okkur vantar fólk til að ganga til liðs við hóp okkar góða starfsfólks.

Störf okkar hjá Isavia eru fjölbreytt og missýnileg, en öll jafn mikil­væg. Fjölskylda sem bregður sér í frí út fyrir landsteinana verður ekki vör við nema hluta af þeim störfum sem unnin eru hjá fyrirtækinu, en hún treystir því að allt gangi vel fyrir sig, hún finni eitthvað við sitt hæfi í flugstöðinni, töskur skili sér á réttan stað og engin vandamál verði þegar kemur að ferð flugvélarinnar. Og sá sem flýgur til Reykjavíkur frá Akureyri treystir því að búið sé að ryðja flugbrautina og ferðin gangi eins og í sögu. Fæst okkar leiða hugann að því að á bak við slíkar ferðir eru ótal handtök, handtök sem við hjá Isavia vinnum með gleði.

Tækifæri í markaðssetningu

Nýja merkið mun prýða allar starfsstöðvar fyrirtækisins og gefur okkur þannig betra færi á sameiginlegri markaðssetningu á allri starfsemi okkar. Það nýtist okkur til dæmis vel í markaðssetningu á fleiri flugvöllum fyrir alþjóðlegt flug, en Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur eru nú kynntir víða um heim sem alþjóðlegir flugvellir undir sömu merkjum og Keflavíkurflugvöllur.

Með þessu rækjum við skyldur okkar gagnvart stefnu stjórnvalda um að auka alþjóðlegt flug um Akureyri og Egilsstaði og þessi sameiginlega ásýnd skapar mikil tækifæri í markaðssetningu á innanlandsvöllunum, sem kannski þarf að hætta að ræða um sem innanlandsvelli þegar alþjóðlegt flug mun aukast þar.

Isavia er stolt af hlutverki sínu og leggur sig fram við að veita viðskiptavinum sínum sem besta þjónustu. Isavia skipar stóran sess í lífi ótal fólks, við erum hluti af ferðalagi um 30 milljóna farþega sem ferðast um flugvelli okkar og flugleiðsögusvæði. Við erum meðvituð um mikilvægi okkar og finnum vel til þeirrar ábyrgðar að vera mikilvægt fyrirtæki í samgöngum og leiðandi þegar kemur að flugsamgöngum. Við erum stolt af starfi okkar og stolt af því að vera hluti af ferðalaginu hjá svo mörgum og á svo fjölbreyttan máta. Það gerum við nú öll undir einu merki.




Skoðun

Sjá meira


×