Erlent

Fimm særðir eftir meint hryðjuverk í Kanada

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Edmonton. Myndin kemur fréttinni ekki beint við.
Lögregluþjónar að störfum í Edmonton. Myndin kemur fréttinni ekki beint við. Vísir/AFP
Lögreglan í Edmonton í Kanada rannsakar nú meint hryðjuverk í borginni í nótt. Árásarmaður ók á lögregluþjón og stakk hann svo nokkrum sinnum og hljóp á brott. Seinna um kvöldið reyndu lögregluþjónar að stöðva manninn sem þá var á sendiferðabíl. Hann ók þó á brott. Eftir eftirför á miklum hraða velti árásarmaðurinn bílnum. Hann hafði þó ekið á fjóra gangandi vegfarendur á meðan á eftirförinni stóð.

Árásarmaðurinn var handtekinn af lögreglu og ástand þeirra fjögurra sem hann ók á liggur ekki fyrir, samkvæmt frétt CBC. Lögregluþjónninn sem var stunginn mun lifa af. Fáni Íslamska ríkisins fannst í bílnum.



„Við teljum að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki,“ sagði Rod Knecht, yfirmaður lögreglunnar í Edmonton. Hann tók þó fram að möguleikanum að fleiri hefðu komið að árásinni væri haldið opnum. Þá sagði Knecht að talið sé að maðurinn hafi reynt að aka á gangandi vegfarendur á meðan á eftirförinni stóð.

Samkvæmt frétt BBC er árásarmaðurinn 30 ára gamall og er hann kunnugur lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×