Innlent

Mikill vatnsleki í Háskóla Íslands

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst útkall vegna lekans klukkan hálf sjö og var slökkvilið að störfum við að dæla vatni til klukkan tíu.
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst útkall vegna lekans klukkan hálf sjö og var slökkvilið að störfum við að dæla vatni til klukkan tíu. Vísir/Vilhelm
Mikill vatnsleki kom upp í einni af aðalbygginum Háskóla Íslands í gær. Byggingin sem um ræðir hýsir Háskólatorg. Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst útkall vegna lekans klukkan hálf sjö og var slökkvilið að störfum við að dæla vatni til klukkan tíu.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist, þetta er einfaldlega regnvatn sem flýtur þarna inn,“ segir Sigurbjörn Guðmundsson, varðstjóri hjá slökkvliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir að verktakar hafi tekið við dælistarfi klukkan tíu og hafi verið að fram á nótt. Ekki er vitað hvað olli lekanum.

„Þarna eru kjallarar sem eru undir yfirborði jarðar, þetta er náttúrulega rétt við Vatnsmýrina og þetta er allt á floti þannig að drenlagnir í kringum hús þurfa að vera í virkilega góðu lagi ásamt dælunum sem dæla þessu frá. Einhversstaðar í þessu kerfi hefur eitthvað klikkað eða bara að dælur hafa ekki undan og regnvatnið sem berst að húsinu einfaldlega flýtur inn í kjallarann í gegnum sprungur eða lagnir og annað slíkt.“

Auk lekans í háskólanum fór slökkvilið höfuðborgarsvæðisins í þrjú útköll í einbýlishús vegna leka í gær, en töluverð úrkoma var á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×